Körfubolti

Lið Aþenu og Brynjar Karl einum leik frá Subway-deildinni eftir spennu­trylli

Smári Jökull Jónsson skrifar
Brynjar Karl er einum leik frá því að koma Aþenu í Subway-deildina.
Brynjar Karl er einum leik frá því að koma Aþenu í Subway-deildina. vísir/Hulda margrét

Aþena vann í kvöld sigur á Tindastól í umspili liðanna um sæti í Subway-deild kvenna. Aþena þarf nú aðeins einn sigur til að tryggja sér sæti í efstu deild á næsta tímabili.

Aþena vann stórsigur á Tindastól í fyrsta leik liðanna en Stólarnir komu til baka í síðasta leik og jöfnuðu einvígið með sigri á heimavelli sínum á Sauðárkróki.

Það var því allt jafnt fyrir leikinn í kvöld sem fór fram á heimavelli Aþenu. Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann. Staðan var 14-14 eftir fyrsta leikhlutann en Aþena leiddi 42-39 í hálfleik.

Aþena náði svo áhlaupi í þriðja leikhluta og fór mest tólf stigum yfir. Leikmenn Tindastóls gáfust hins vegar ekki upp. Þær minnkuðu muninn jafnt og þétt í fjórða leikhlutanum og þegar 1.15 mínútur voru eftir var staðan 78-74 fyrir Aþenu.

Tindastóll minnkaði muninn í 78-76 en missti síðan Ernese Vida af velli með fimm villur þegar 43 sekúndur voru eftir. Vida hafði þá skorað 14 stig og tekið 15 fráköst en þrátt fyrir fjarveru hennar tókst Tindastól að jafna metin í 78-78 þegar 20 sekúndur voru eftir.

Aþena komst yfir örskömmu síðar og Tindastóll tók þriggja stiga skot í sinni síðustu sókn sem fór forgörðum. Aþena fagnaði því 80-78 sigri og er komin í 2-1 í einvígi liðanna um laust sæti í Subway-deildinni.

Liðin mætast á Sauðárkróki á þriðjudag þar sem Aþena getur tryggt sér sæti í Subway-deildinni á næsta tímabili.

Ifunanya Okoro skoraði 25 stig fyrir Tindastól í kvöld og var stigahæst í þeirra liði en Sianna Martin skoraði 26 stig fyrir Aþenu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×