Enski boltinn

Ten Hag vildi fá Kane í sumar: „Þú veist að hann skorar þrjá­tíu mörk“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Harry Kane fagnar einu 43 marka sinna á tímabilinu.
Harry Kane fagnar einu 43 marka sinna á tímabilinu. getty/Jose Breton

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að Harry Kane hafi verið fyrsti kostur liðsins í framherjastöðuna síðasta sumar.

Bayern München keypti enska landsliðsframherjann fyrir tímabilið en hann hafði verið sterklega orðaður við United. 

Í viðtali við Gary Neville á Sky Sports viðurkenndi Ten Hag að hann hefði viljað kaupa Kane. Í staðinn fékk United Danann unga, Rasmus Højlund frá Atalanta.

„Við höfðum nokkra kosti með unga og hæfileikaríka menn eins og Rasmus Højlund. Ég var með framherja í sigtinu sem hefur sannað sig, við vildum fá en gátum það ekki. Þess vegna fengum við Rasmus því hann er lofandi leikmaður,“ sagði Ten Hag.

„Þú veist að Harry Kane skorar þrjátíu mörk. Ég held að Rasmus komist á þann stað en hann þarf að fá tíma. Það er ekki sanngjarnt að bera hann saman við Harry Kane og ég myndi aldrei gera það. En með Højlund fengum við efnilegasta leikmanninn í þessari stöðu og við erum mjög ánægðir með hann.“

Højlund er næstmarkahæsti leikmaður United á tímabilinu með fjórtán mörk í öllum keppnum. Á meðan hefur Kane skorað 43 mörk í 43 leikjum fyrir Bayern í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×