Enski boltinn

Tekur fyrir að starfs­fólk Manchester United vinni að heiman

Aron Guðmundsson skrifar
Jim Ratcliffe á vænan eignarhlut í Manchester United 
Jim Ratcliffe á vænan eignarhlut í Manchester United 

Breski auðkýfingurinn Jim Ratcliffe, sem á vænan hlut í enska úrvalsdeildarfélaginu Manchester United, hefur komið því í gegn að starfsfólki félagsins verði meinað að vinna að heiman í störfum sínum fyrir félagið. 

Ratcliffe gekk frá kaupum á 27,7 prósenta eignarhlut í Manchester United fyrr á þessu ári og er hann nú þegar farin að láta til sín taka í málum tengdum félaginu. 

Einn liður í því að stokka upp í hlutunum hjá enska úrvalsdeildarfélaginu er að taka fyrir það að starfsmönnum þess sé leyft að vinna heima frá sér. 

Þessum fyrirmælum var komið áleiðis til starfsmanna félagsins á starfsmannafundi í gær og mættu þau nokkrum mótbárum frá fulltrúum í framkvæmdastjórn Manchester United, meðal annars frá Patrick Stewart sem hefur sinnt starfi framkvæmdastjóra til bráðabirgða upp á síðkastið. 

The Athletic greinir frá því að á meðan að fyrirmælin hafi á heildina verið litin jákvæðum augum af starfsfólki, hafi þau einnig fallið í grýttan jarðveg hjá öðrum sem hafa vanið sig á að sinna starfi sínu að heiman og horfa nú fram á rót á sínu skipulagi dag frá degi. 

Fyrirkomulagið sem hefur verið við lýði, og snýr að því að starfsfólk megi sinna vinnu sinni að heiman, hefur verið til staðar síðan í Covid 19 heimsfaraldrinum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×