Körfubolti

Harma aug­lýsingar á gólfi og vilja banna þær eftir meiðsli Martins

Sindri Sverrisson skrifar
Remy Martin rann til á gólfi Smárans, á svæði sem búið var að líma auglýsingarborða á, og reif hásin.
Remy Martin rann til á gólfi Smárans, á svæði sem búið var að líma auglýsingarborða á, og reif hásin. Stöð 2 Sport

Stjórn ÍTK, Íslensks toppkörfubolta, leggur til að auglýsingar á gólfum körfuboltavalla verði bannaðar og segir þær geta valdið alvarlegum slysum.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá stjórn ÍTK, hagsmunasamtaka sem stofnuð voru á síðustu ári, en í stjórninni sitja fulltrúar fimm íslenskra körfuboltafélaga.

Yfirlýsingin birtist í kjölfar alvarlegra hásinarmeiðsla Remys Martin, leikmanns Keflavíkur, í leik við Grindavík í Smáranum í fyrrakvöld. Eins og sjá má á myndbandinu hér að neðan virðist Martin renna til á auglýsingu sem búið var að líma á keppnisgólfið.

Stjórn ÍTK telur að nóg sé komið af slæmum meiðslum sem rekja megi beint til auglýsinga á gólfum körfuboltavalla, þar sem þær séu mun sleipari en gólfið sjálft. Hún leggur því til að slíkar auglýsingar verði með öllu bannaðar.

Ljóst er að Remy Martin tekur ekki meiri þátt í úrslitakeppninni í vor, eftir að hafa farið á kostum með bikarmeisturum Keflavíkur í vetur, og ÍTK bendir á að meiðsli eins og hann glímir nú við geti orðið til þess að ferlinum ljúki. Yfirlýsingu samtakanna má sjá í heild hér að neðan.

Einvígi Keflavíkur og Grindavíkur heldur áfram á laugardagskvöld en Grindavík er 1-0 yfir eftir nauman sigur í leiknum í Smáranum á þriðjudagskvöld.

Yfirlýsing stjórnar ÍTK:

Stjórn Íslensks Toppkörfubolta (ÍTK) leggur til að allar auglýsingar sem límdar eru á gólf körfuknattleiksvalla innanhúss verði bannaðar frá og með næsta tímabili. ÍTK telur að nóg sé komið af slæmum meiðslum sem rekja má beint til slíkra auglýsinga en áferðin á þeim gerir þær vanalega mun sleipari viðkomu en leikvöllurinn sjálfur. Í gær lenti einn besti leikmaður í deildinni og lykilleikmaður Keflavíkur í því að renna á slíkri auglýsingu með þeim afleiðingum að hann sleit hásin og verður ekki meira með á þessu tímabili.

Þetta er ekki fyrsta dæmið um leikmann sem meiðist vegna þess í stórleik en vonandi það síðasta. Það er næg meiðslahætta í körfubolta fyrir svo ekki sé bætt við óþarfa meiðslaáhættu vegna auglýsinga á velli. Slík meiðsli eins og Remy Martin varð fyrir í gær geta hæglega endað feril leikmanna.

Virðingarfyllst

Stjórn ÍTK


Tengdar fréttir

„Breytir ein­víginu ansi mikið“

„Basile náði að klára þetta þegar hann kom sér á körfuna. Við áttum erfitt með að dekka hann,“ sagði Pétur Ingvarsson þjálfari Keflavíkur í viðtali við Andra Má Eggertsson eftir leik Keflavíkur og Grindavíkur í kvöld. Keflavík er 1-0 undir í einvíginu.

Guðni stal senunni í Smáranum: „Sástu for­setann þarna?“

For­seti Ís­lands, Guðni Th. Jóhannes­son var á meðal á­horf­enda á fyrsta leik Grinda­víkur og Kefla­víkur í undan­úr­slitum Subway deildar karla í körfu­bolta í gær. Hrifning hans á einni af flottustu körfu leiksins leyndi sér ekki og voru sér­fræðingar Körfu­bolta­kvölds yfir sig hrifnir af viðbrögðum Guðna sömu­leiðis.

PlayAir leiksins var Dedrick Deon Basi­le

Körfuboltakvöld valdi Dedrick Deon Basile PlayAir leiksins í undanúrslitaleik Grindavíkur og Keflavíkur í Subway-deildar karla í körfubolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×