Valur komst yfir gegn Fram í gær þegar hornspyrna Gylfa Þórs Sigurðssonar rataði beint á koll Patricks Pedersen. Daninn skoraði og jafnaði þar með met Stevens Lennon yfir flest mörk erlends leikmanns í efstu deild á Íslandi, með sínu 101. marki.
Viktor Bjarki kom Fram hins vegar til bjargar á síðustu stundu þegar hann skoraði úr teignum í kjölfarið á vel útfærðri aukaspyrnu. Þessi ungi leikmaður, sem er að klára grunnskóla, er á leið til danska stórveldisins FC Kaupmannahafnar í sumar þegar hann verður sextán ára.
Hetja Stjörnunnar í 1-0 sigrinum gegn Fylki í gær er heldur ekki gömul, en þó búin að fara í hálft ár í atvinnumennsku til Svíþjóðar.
Hinn tvítugi Guðmundur Baldvin Nökkvason, sem kom í mars að láni heim til Stjörnunnar frá Mjällby, skoraði sigurmarkið rétt fyrir leikslok. Hann endurtók þar með leikinn frá því í bikarleik gegn Augnabliki í síðustu viku.
Fjórum umferðum er nú lokið í Bestu deild karla og næsta umferð hefst á laugardaginn, þegar FH tekur á móti Vestra.
Á sunnudaginn mætast KA og KR á Akureyri, Stjarnan og ÍA í Garðabæ, HK og Víkingur í Kópavogi og Fram og Fylkir í Úlfarsárdal. Stórleikur umferðarinnar er svo á mánudagskvöld þegar Breiðablik tekur á móti Val.