Árásin átti sér stað á lögreglustöð í borginni síðasta haust, en Íslendingurinn, sem er 36 ára gamall, var vistaður í fangaklefa vegna skemmdarverka.
Íslendingurinn var leiddur fyrir dóm vegna málsins. Héraðsdómur í Varsjá dæmdi hann í síðasta mánuði til að greiða níu þúsund slota sekt vegna málsins, þar að auki er honum gert að greiða lögregluþjónunum hvorum um sig tvö þúsund slot.
Þetta kemur fram í svari héraðssaksóknara Varsjárborgar við fyrirspurn fréttastofu. Í svarinu segir að niðurstaða héraðsdóms sé endanleg.
Íslendingurinn var ákærður fyrir að ráðast að lögreglumönnunum tveimur og valda þeim minni háttar áverkum.
Hann var hins vegar ekki ákærður vegna áðurnefndra skemmdarverka. Í pólskum fjölmiðlum var fullyrt að hann hafi valdið skemmdum á lúxusbifreið af gerðinni Bentley með því að berja húdd hennar með fartölvu og sparka í stuðara hennar.
Eigandi bílsins var sagður meta tjón sitt á sextíu þúsund pólsk slot. Það gerir tæplega tvær milljónir króna.
Í svari héraðssaksóknara kemur þó fram að Íslendingurinn hafi ekki verið sóttur til saka vegna skemmdarverkanna þar sem eigandi bílsins hafi ekki lagt fram kvörtun vegna þeirra.
Árásin til á myndbandi
Upptaka úr öryggismyndavél kjallara lögreglustöðvarinnar sýnir árás Íslendingsins.
Myndbandinu var lekið til fjölmiðla, en af því að dæma áttu lögreglumennirnir miklum í vandræðum með Íslendinginn. Það er ekki fyrr en þeir fá liðsauka sem þeim tekst að yfirbuga manninn.
Myndskeiðið má sjá hér að neðan.
RMF, pólskur fjölmiðill, hafði eftir talsmanni lögreglunnar í kjölfar árásarinnar að lögreglumennirnir hefðu verið fastir í rútínu og því ekki verið undirbúnir fyrir slagsmál við fanga. Upptakan sýndi fram á að þjálfun lögregluþjónanna væri ábótavant og að upptakan yrði notuð til að þjálfa lögreglu.