Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri hagspá hagfræðideildar Landsbankans til ársins 2026.
Spáin gerir ráð fyrir samfelldum hagvexti næstu ár; 0,9 prósent á þessu ári, 2,2 prósent árið 2025 og 2,6 prósent árið 2026. Verðbólgan er sögð munu mælast sex prósent í ár en lækka í 4,4 prósent árið 2025 og 3,5 prósent árið 2026.
„Við teljum að háir vextir haldi áfram að halda aftur af einkaneyslu en þó færist meiri kraftur í hana en á síðasta ári, þegar hún jókst aðeins um 0,5%. Samkvæmt spánni eykst einkaneysla um 0,9% í ár, 1,8% á næsta ári og um 2,5% árið 2026. Samneysla eykst líka smám saman öll árin, um á bilinu 1,5-1,9% á ári,“ segir í samantekt.
Landsbankinn gerir ráð fyrir hægfara styrkingu krónunnar og jafnri fjölgun ferðamanna, úr 2,3 milljónum í ár í 2,5 milljónir árið 2026.
Þá gerir bankinn ráð fyrir 6,6 prósent hækkun launa í ár, 6,1 prósent á næsta ári og 5,5 prósent árið 2026. Kaupmáttur muni aukast út spátímann.
Atvinnuleysi verði að meðaltali fjögur prósent á þessu ári, 4,2 prósent árið 2025 og 3,9 prósent árið 2026.
„Eftirspurnarþrýstingur virðist nokkur á íbúðamarkaði þrátt fyrir háa vexti og gerum við því ráð fyrir að íbúðaverð mælist að jafnaði 7% hærra í ár en í fyrra. Á næsta ári spáum við 8,8% hækkun íbúðaverðs og 7,7% hækkun árið 2026.“