Erlent

Grafið undan fjöl­miðla­frelsinu víða í Evrópu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Robert Fico, forsætisráðherra Slóvakíu, er sagður hafa lokað algjörlega á aðgengi fjögurra fjölmiðla í landinu.
Robert Fico, forsætisráðherra Slóvakíu, er sagður hafa lokað algjörlega á aðgengi fjögurra fjölmiðla í landinu. epa/Robert Fico

Fjölmiðlafrelsið stendur höllum fæti víðsvegar í Evrópu og er í verulegri hættu í nokkrum ríkjum, samkvæmt nýrri skýrslu Civil Liberties Union for Europe (Liberties) í Berlín.

Guardian hefur eftir Evu Simon, talskonu Liberties, að sums staðar megi rekja þróunina beint til annað hvort andvaraleysis stjórnvalda eða aðgerða þeirra gegn fjölmiðlum. 

Simon segir innleiðingu nýrrar fjölmiðlalöggjafar Evrópusambandsins munu skipta sköpum. Hversu vel tekst til muni verða undir stjórnvöldum í hverju ríki komið en löggjöfin muni þýða að hægt verði að skjóta málum er varða fjölmiðla og starfsumhverfi þeirra til Evrópudómstóls.

Samkvæmt skýrslunni sættu blaðamenn í Króatíu, Frakklandi, Þýskalandi, Grikklandi og Ítalíu líkamlegum árásum 2023 og í Ungverjalandi og Slóvakíu sættu þeir hótunum af hálfu kjörinna fulltrúa.

Í Rúmeníu og Svíþjóð voru árásir á blaðamanna ekki rannsakaðar af lögreglu og í Frakklandi og Búlgaríu sættu blaðamenn árásum af hálfu lögreglu.

Blaðamenn sættu reglulega lögsóknum í Króatíu, Grikklandi, Ítalíu, Hollandi og Svíþjóð og í Þýskalandi, Grikklandi, Hollandi og Póllandi sættu þeir njósnum með forritum á borð við Pegasus og Predator.

Þá segir í skýrslunni að víða sé eignarhald fjölmiðla á höndum fárra einstaklinga og að sums staðar hafi blaðamenn verið útilokaðir frá blaðamannafundum og öðrum viðburðum vegna gagnrýnnar umfjöllunar um stjórnvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×