Einvígið gæti ekki verið mikið jafnara. Bæði lið hafa unnið tvo leiki og bæði lið hafa líka unnið útileik í einvíginu.
Leikurinn hefst klukkan 19.15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Útsendingin hefst með Körfuboltakvöldsstrákunum klukkan 18.45. Þeir gera síðan lika leikinn upp eftir hann og velja PlayAir leiksins og Play leiksins.
Njarðvíkingar tryggðu sér oddaleik á heimavelli með því að vinna síðasta leik í Þorlákshöfn en tveir síðustu leikir einvígisins hafa einmitt unnist á útivelli.
Þórsarar þekkja það mjög vel að vera í þessari stöðu því þetta verður fimmti oddaleikur liðsins á síðustu fimm árum.
Í raun hafa Þórsarar spilað þrjá oddaleiki síðan Njarðvík var síðast í oddaleik í átta liða úrslitum 2019. Þá spiluðu þessi lið sitthvorn oddaleikinn sama kvöldið.
Þórsarar voru síðan í oddaleik á móti Stjörnunni í undanúrslitum á leið sinni að Íslandsmeistaratitlinum 2021 og spiluðu tvo oddaleiki í úrslitakeppninni í fyrra, fyrst unnu þeir Hauka á útivelli í oddaleik í átta liða úrslitunum en töpuðu svo á móti Val á Hlíðarenda í oddaleik í undanúrslitunum.
Njarðvík vann fyrsta leikinn í einvíginu nokkuð sannfærandi en síðustu þrír leikir hafa allir verið æsispennandi og síðasti leikurinn í Ljónagryfjunni endaði í framlengingu.
- Oddaleikir Njarðvíkur og Þór á síðustu tólf árum
- Njarðvík 2 sigrar og 5 töp
- Átta liða úrslit 2013: Tap fyrir Snæfelli á útivelli (82-84)
- Undanúrslit 2014: Tap fyrir Grindavík á útivelli (95-120)
- Átta liða úrslit 2015: Sigur á Stjörnunni á heimavelli (92-73)
- Undanúrslit 2015: Tap fyrir KR á útivelli (94-102)
- Átta liða úrslit 2016: Sigur á Stjörnunni á útivelli (79-75)
- Undanúrslit 2016: Tap fyrir KR á útivelli (64-92)
- Átta liða úrslit 2019: Tap fyrir ÍR á heimavelli (74-86)
- Þór Þorl. 4 sigrar og 2 töp
- Átta liða úrslit 2012: Sigur á Snæfelli á heimavelli (72-65)
- Átta liða úrslit 2017: Tap fyrir Grindavík á útivelli (82-93)
- Átta liða úrslit 2019: Sigur á Tindastól á útivelli (94-93)
- Undanúrslit 2021: Sigur á Stjörnunni á heimavelli (92-74)
- Átta liða úrslit 2023: Sigur á Haukum á útivelli (95-93)
- Undanúrslit 2023: Tap fyrir Val á útivelli (95-102)