Körfubolti

Frið­rik Ingi sæmdur gull­merki Njarð­víkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Friðrik Ingi Rúnarsson með Íslandsbikarinn eftir að titilinn vannst á Seltjarnarnesi vorið 1998.
Friðrik Ingi Rúnarsson með Íslandsbikarinn eftir að titilinn vannst á Seltjarnarnesi vorið 1998. Vísir

Friðrik Ingi Rúnarsson fékk gullmerki Njarðvíkur á dögunum en félagið fagnar nú áttatíu ára afmæli sínu.

Friðrik Ingi gerði Njarðvíkurliðið tvisvar að Íslandsmeisturum í körfubolta karla, fyrst aðeins 22 ára gamall á sínu fyrsta þjálfaratímabili og svo aftur árið 1998.

Njarðvíkingar urðu einnig tvisvar sinnum bikarmeistarar undir hans stjórn árið (1992 og 1999) og tvisvar sinnum deildarmeistarar (1991, 2000).

Hann þjálfaði Njarðvíkur í þremur lotum, fyrst 1990 til 1992, aftur frá 1997 til 2000 og svo í þriðja sinn frá 2014 til 2016.

Áður en hann varð þjálfari Njarðvíkurliðsins var Friðrik Ingi leikmaður með Njarðvík þar sem hann var meðlimur í þremur Íslandsmeistaraliðum og fjórum bikarmeistaraliðum félagsins. Alls tók hann því þátt í því að koma með fimm Íslandsmeistaratitla og sex bikarmeistaratitla í Ljónagryfjuna.

Friðrik Ingi stýrði Njarðvíkurliðinu alls í 162 deildarleikjum og 34 leikjum í úrslitakeppni sem þjálfari. Alls vann Njarðvík 151 af 221 leikjum á Íslandsmóti (deild+úrslitakeppni) undir hans stjórn.

Friðrik Ingi gerði Grindavík einu sinni að Íslandsmeisturum (1996) og tvisvar sinnum að bikarmeisturum (1995 og 2006).

Alls hefur Friðrik því unnið þrjá Íslandsmeistaratitla og fjóra bikarmeistaratitla sem þjálfari. Enginn þjálfari hefur heldur unnið fleiri leiki í sögu úrslitakeppninnar (73).

Friðrik Ingi var ekki sá eini sem fékk gullmerki því Thor Hallgrímsson fékk líka gullmerki fyrir sjálfboðaliðastörf og stjórnarsetu til fjölda ára.

Guðný Björg Karlsdóttir fékk silfurmerki og þau Erna Hákonardóttir, Ólafur Helgi Jónsson, Skúli Björgvin Sigurðsson, Sigurrós Antonsdóttir og Örvar Þór Kristjánsson fengu öll bronsmerki. Það má lesa meira um það hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×