Körfubolti

„Mér finnst þetta full­mikið“

Sindri Sverrisson skrifar
Viðar Örn Hafsteinsson verður ekki með David Ramos til taks í kvöld þegar Höttur freistar þess að vinna Val öðru sinni, í sinni fyrstu úrslitakeppni.
Viðar Örn Hafsteinsson verður ekki með David Ramos til taks í kvöld þegar Höttur freistar þess að vinna Val öðru sinni, í sinni fyrstu úrslitakeppni. vísir/Hulda Margrét

„Það er mikill missir að hann skuli missa af næstu þremur leikjum,“ segir Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, um David Ramos sem nú er kominn í leikbann fyrir pungspark í leik gegn Val.

Tímabilinu gæti verið lokið hjá Ramos sem verður ekki með á Egilsstöðum í kvöld, þegar Höttur freistar þess að jafna einvígið við Val í 2-2 í 8-liða úrslitum Subway-deildarinnar í körfubolta.

Viðar er hins vegar sannfærður um að Ramos fái fleiri tækifæri til að spila í úrslitakeppninni, með því að Höttur komist í undanúrslit.

„Hann verður bara klár í leik tvö í undanúrslitunum,“ sagði Viðar í samtali við Vísi.

Um hámarksbann er að ræða án þess að Hetti gefist kostur á að áfrýja úrskurðinum, en í reglugerð KKÍ segir að aðeins megi áfrýja fjögurra leikja banni eða þyngri refsingu. Viðar og félagar hafa því ekki önnur ráð en að una dómnum:

„Mér finnst þetta fullmikið. Ég er auðvitað litaður og hafði vonast eftir eins leiks banni en hefði skilið tveggja leikja bann. En það þýðir ekkert að pæla í því,“ sagði Viðar.

Ramos ósáttur við sín viðbrögð

Bannið fékk Ramos fyrir að sparka frá sér, beint í klof Franks Arons Booker, liggjandi á gólfinu eftir að sá síðarnefndi hafði veitt honum högg. Dómarar leiksins gátu hins vegar ekki skoðað atvikið aftur þar sem VAR-skjár var ekki í boði á þessum leik.

„Það hefði klárlega átt að vera skoðað, en það er bara okkar að svara þessu inni á vellinum í kvöld,“ sagði Viðar, en hver voru viðbrögð Ramos eftir leik?

„Hann er ósáttur við sín viðbrögð, gerði mistök, og það er bara búið,“ sagði Viðar.

En hversu mikil áhrif hefur dómurinn á einvígið?

„David er búinn að spila vel í þessu einvígi og það er vont að missa hann út, en það koma aðrir menn í staðinn sem eru klárir í að stíga upp,“ sagði Viðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×