Enski boltinn

Á­saka dómara um ó­heilindi og hlut­drægni

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Nottingham Forest ásakar Stuart Atwell um óheilindi.
Nottingham Forest ásakar Stuart Atwell um óheilindi. samsett / Getty / FotoJet

Nottingham Forest tók til samfélagsmiðla eftir leik gegn Everton og ásakaði Stuart Atwell, myndbandsdómara leiksins, um hlutdrægni í ákvarðanatöku. Félagið hefur ekki lagt fram formlega kvörtun eða kæru en íhugar valkosti sína vandlega. 

Forest vildi þrisvar fá vítaspyrnu í leiknum. Fyrst á 24. mínútu þegar Ashley Young virtist fella Gio Reyna í teignum, aftur rétt fyrir hálfleik þegar boltinn virtist fara í hönd Ashley Young eftir skot Callum Hudson-Odoi. Snemma í seinni hálfleik virtist Young svo fella Hudson-Odoi í teignum. 

Ekkert var dæmt og myndbandsdómara leiksins þótti ekki tilefni til að láta dómarann Anthony Taylor skoða atvikin aftur. 

Félagið gaf út yfirlýsingu á samfélagsmiðlum fljótlega eftir að leik lauk. 

Eins og lesa má eru heilindi myndbandsdómara leiksins, Stuart Atwell, dregin í efa af þeim ástæðum að hann heldur með Luton Town. Lið sem Forest er í harðri baráttu við um að halda sér uppi í úrvalsdeildinni. Luton er einu stigi og einu sæti neðar en Forest eins og er. 

Þá segir að Forest hafi greint dómarasamtökunum (PGMOL) frá þessu fyrir leik. 

Mark Clattenburg, fyrrum dómari, var ráðinn til starfa hjá Forest sem dómgæsluráðgjafi í febrúar á þessu ári, að sögn félagsins vegna fjölmargra rangra dóma sem féllu gegn þeim. Hann hafði samband við hæstráðanda PGMOL, Howard Webb. 

Clattenburg krafðist þess þó ekki að Atwell yrði skipt út, heldur vildi hann einungis vekja athygli á málinu. 

Enska knattspyrnusambandið hefur brugðist við og hafið rannsókn á málinu. Af yfirlýsingu Forest að dæma þykir líklegt að þeir muni taka málið lengra. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×