Enski boltinn

Everton vann og er nú fimm stigum frá fallsæti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Idrissa Gueye kom Everton í 1-0 á móti Nottingham Forest  á Goodison Park í dag.
Idrissa Gueye kom Everton í 1-0 á móti Nottingham Forest  á Goodison Park í dag. AP/Peter Byrne

Everton vann gríðarlega mikilvægan botnbaráttuslag á móti Nottingham Forest í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Everton vann leikinn 2-0 og er ekki aðeins komið fjórum stigum á undan Nottingham Forest í fallbaráttunni heldur einnig fimm stigum frá fallsæti.

Hlutirnir féllu ekki með Forest mönnum sem báðu hvað eftir annað um vítaspyrnu án þess að fá neitt, hvorki frá dómara leiksins né myndbandsdómurunum.

Idrissa Gana Gueye kom Everton í 1-0 á 29. mínútu með lúmsku langskoti sem Matz Sels kom ekki vörnum við í marki Nottingham Forest.

Dwight McNeil skoraði annað markið á 76. mínútu og aftur var það lúmsk langskot sem Selz réði ekki við.

Í báðum tilfellum voru þetta hnitmiðuð skot í stöngina og inn.

Þetta var annar sigur Everton í síðustu þremur leikjum og þessi sex stig vega þungt í baráttunni um áframhaldandi líf í deildinni.

Þetta þýðir einnig að Jóhann Berg Guðmundsson og félagar í Burnley eru aðeins þremur stigum á eftir Forest. Forest er með 26 stig, Luton er með 25 stig og Burnley er með 23 stig eftir sigurinn í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×