Enski boltinn

Segir að stressið sé að fara með leik­menn Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah og félagar í Liverpool hafa átt tvær erfiðar vikur. Tveir titlar farnir á stuttum tíma og forskot í deildinni orðið að engu.
Mohamed Salah og félagar í Liverpool hafa átt tvær erfiðar vikur. Tveir titlar farnir á stuttum tíma og forskot í deildinni orðið að engu. Getty/Andrew Powell

Liverpool hefur misst af tveimur titlum á stuttum tíma og um leið misst efsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Liverpool vann 1-0 sigur á Atalanta á útivelli í gærkvöldi í seinni leik liðanna í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar en það dugði ekki þar sem Liverpool tapaði heimaleiknum 3-0.

Fyrir stuttu datt liðið út á móti Manchester United í enska bikarnum og liðið tapaði síðan á móti Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi.

Tvær herfilegar vikur og draumatímabilið er orðið nánast að engu. Liðið á vissulega enn möguleika á enska meistaratitlinum en sigurlíkur liðsins hafa hrunið eftir gengi síðustu vikna.

„Þetta er farið að hafa áhrif á þá. Ég sé lið sem er að spila í miklu álagi,“ sagði Don Hutchison, fyrrum leikmaður Liverpool, við TNT Sports. Hann sér mikið stress á leikmönnum liðsins.

„Þetta er lið undir miklu álagi. Þeir eru að reyna að reyna tímabilið vel af því að þetta er kveðjuferðalag Jurgen Klopp,“ sagði Hutchison.

Liverpool vann enska deildabikarinn fyrr í vetur stuttu eftir að Klopp tilkynnti að hann væri að hætta í sumar. Síðan hefur Liverpool liðið náð í 22 af 27 mögulegum stigum.

Ófarir gegn Manchester United í bæði deild og bikar og svo að falla út úr Evrópudeildinni er mikið áfall fyrir lærisveina Klopp.

Evrópudeildin var og verður eina keppnin sem Klopp tókst ekki að vinna sem knattspyrnustjóri Liverpool.

Nú getur liðið einbeitt sér að ensku úrvalsdeildinni og látið sig dreyma um góðan endi 19. maí næstkomandi, þegar Klopp stýrir liðinu í síðasta skiptið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×