Romário lék síðast með America í nóvember 2009 en hefur nú rifið fram skóna á ný, 58 ára gamall.
Hann ætlar að spila við hlið sonar síns, Romárinho, með America sem leikur í næstefstu deild í Ríó. Romário ætlar þó ekki að spila með America í deildakeppninni.
Romário var einn besti leikmaður heims á sínum tíma. Hann gerði garðinn frægan með PSV Eindhoven og Barcelona og skoraði 55 mörk í sjötíu leikjum fyrir brasilíska landsliðið.
Fimm þeirra komu á HM í Bandaríkjunum 1994 þar sem Brasilía stóð uppi sem sigurvegari. Romário var einnig valinn besti leikmaður mótsins sem og besti leikmaður heims af FIFA 1994.
Alls skoraði Romário 784 mörk á ferlinum og er talinn vera níundi markahæsti leikmaður fótboltasögunnar.
Eftir að ferlinum lauk sneri Romário sér að stjórnmálum. Hann var kjörinn þingmaður fyrir Ríó de Janeiro fyrir áratug.