Enski boltinn

Rifust um hver átti að taka vítið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cole Palmer er kominn með boltann en þeir Noni Madueke og Nicolas Jackson ætluðu ekki að gefa sig. Fyrirliðinn Conor Gallagher reynir að miðla málum.
Cole Palmer er kominn með boltann en þeir Noni Madueke og Nicolas Jackson ætluðu ekki að gefa sig. Fyrirliðinn Conor Gallagher reynir að miðla málum. Getty/Catherine Ivill

Knattspyrnustjóri Chelsea ætti að öllu eðlilegu að vera mjög kátur og glaður eftir 6-0 sigur á Everton en annað kom á daginn í gærkvöldi. Barnalegt rifrildi leikmanna Chelsea liðsins stal senunni frá frábærri frammistöðu.

Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Chelsea, var öskureiður eftir leik og ástæðan var auðvitað framkoma tveggja leikmanna hans, þeirra Nicolas Jackson og Noni Madueke.

Chelsea var komið í 4-0 í leiknum á móti Everton á Stamford Bridge þegar liðið fékk víti. Cole Palmer var kominn með þrennu í leiknum og hann er vítaskytta liðsins. Jackson og Madueke vildu hins vegar taka vítaspyrnuna og fóru að rífast um boltann en Madueke hafði fiskað vítið.

Þetta gerðu þeir fyrir framan alla á vellinum og alla heima í stofu. Þessi barnalega hegðun hneykslaði marga. Þetta endaði með því að fyrirliðinn Conor Gallagher þurfti að skipta sér af, ýta félögunum í burtu og rétta Palmer boltann.

„Leikmenn og starfsmenn vita að Cole Palmer er vítaskyttan,“ sagði Pochettino öskureiður eftir leikinn.

„Ég er í miklu uppnámi vegna þessa máls. Agi er eitt það mikilvægasta í okkar liði,“ sagði Pochettino.

„Við getum öll samþykkt það að þeir [Jackson og Madueke] höfðu rangt fyrir sér. Þeir eru ekki reyndir leikmenn. Þeir eru ungir. Þetta voru mjög góð viðbrögð hjá Conor Gallagher,“ sagði Pochettino.

„Við megum ekki haga okkur svona. Þetta er eins og við séum í skóla og það sé okkar starf að sýna þeim vitleysuna svo þeir geti lært af því. Það verður engin refsing en þetta má ekki koma fyrir aftur. Ef Palmer er á vellinum þá tekur hann vítin,“ sagði Pochettino.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×