Erlent

Ók stórum flutninga­bíl viljandi á opin­bera byggingu

Kjartan Kjartansson skrifar
Flutningabíllinn var með farm á palli þegar honum var ekið inn í móttöku stofnunar sem gefur út ökuskírteini í Texas.
Flutningabíllinn var með farm á palli þegar honum var ekið inn í móttöku stofnunar sem gefur út ökuskírteini í Texas. AP/Lekan Oyekanmi

Einn er látinn og þrettán slasaðir eftir að ökumaður stórs flutningabíls ók honum viljandi inn í opinbera byggingu í Texas í Bandaríkjunum í dag. Manninum hafði verið synjað um endurnýjun á ökuréttindum.

Ökumaðurinn er sagður hafa stolið átján hjóla flutningabílnum og síðan ekið honum inn í inngang almannaöryggisskrifstofu Texas-ríkis við hraðbraut í Brenham, smábæ um 120 kílómetra vestur af Houston. Skrifstofan gefur út ökuskírteini.

Atwood Kenjura, bæjarstjóri Brenham, segir að ökumaðurinn, sem er 42 ára gamall karlmaður, hafi bakkað og ætlað sér að keyra aftur á bygginguna en verið stöðvaður áður en honum tókst það. Hann er nú í haldi lögreglu og er ómeiddur, að sögn CNN-fréttastöðvarinnar. Honum hafði verið synjað um endurnýjun ökuskírteinis síðdegis í gær.

Ríkisþingmaður repúblikana, Lois Kolkhorst, sagði í yfirlýsingu að ekkert af starfsfólki stofnunarinnar hafi slasast alvarlega. Einn hafi þó verið fastur í töluverðan tíma í byggingunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×