Erlent

Kennari fékk piltinn til að fara úr skóla­stofunni eftir skot­á­rásina

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögregluborði við Viertola-gagnfræðiskólann í Vantaa í Finnlandi þar sem tólf ára drengur skaut þrjú skólasystkini sín 2. apríl.
Lögregluborði við Viertola-gagnfræðiskólann í Vantaa í Finnlandi þar sem tólf ára drengur skaut þrjú skólasystkini sín 2. apríl. AP/Jussi Nukari/Lehtikuva

Finnska lögreglan segir að kennari hafi fengið tólf ára dreng sem skaut þrjú skólasystkini sín, þar af eitt til bana, í Vantaa í síðustu viku til þess að yfirgefa skólastofuna. Pilturinn er sagður hafa notað byssu sem hann tók frá ættingja sínum í leyfisleysi.

Tólf ára piltur lést og tvær jafnöldrur hans særðust alvarlega í skotárásinni í Viertola-skólanum í Vantaa, nærri Helsinki, á þriðjudag í síðustu viku. Pilturinn sem skaut þau sagði lögreglu að einelti sem hann varð fyrir hefði verið tilefni árásarinnar. Lögreglan telur sig nú hafa nokkuð nákvæma mynd af atburðunum, að sögn finnska ríkisútvarpsins YLE.

Einn kennari var í skólastofunni þar sem pilturinn skaut á börnin. Öðrum kennara sem kom að tókst að sannfæra piltinn um að yfirgefa stofuna og skólann. Marko Särkkä, yfirmaður rannsóknarinnar, sagði til fyrirmyndar hvernig kennararnir brugðust við af ábyrgð.

Skammbyssa sem pilturinn notaði við ódæðið er í eigu náins ættingja sem er þó ekki hluti af nánustu fjölskyldu hans. Ættinginn geymdi byssuna á viðeigandi hátt en lögreglan segir að pilturinn hafi tekið hana í leyfisleysi. Til rannsóknar er hvernig piltinum tókst að komast yfir byssuna.

Stúlkurnar tvær sem særðust eru enn á sjúkrahúsi, önnur þeirra þungt haldin. Lögreglan hefur náð að taka skýrslu af hinni stúlkunni.


Tengdar fréttir

Ein­elti sagt á­stæða á­rásarinnar

Tólf ára barnið sem grunað er um skotárásina í grunnskóla í Vantaa í Finnlandi í gær hafði einungis verið nemandi í skólanum í ellefu vikur. Ástæða árásarinnar er sögð vera einelti sem nemandinn hafði sætt.

Flaggað í hálfa stöng eftir skot­á­rásina

Flaggað verður í hálfa stöng við allar opinberar byggingar og stofnanir í Finnlandi í dag vegna skotárásarinnar í grunnskóla í Vantaa í gær. Tólf ára drengur lét lífið og tvær stúlkur særðust þar í árás tólf ára barns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×