Fulltrúar stjórnarflokkanna þriggja hafa átt í viðræðum um framhald stjórnarsamstarfsins um helgina eftir að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tilkynnti á föstudag að hún ætlaði sér að hætta í stjórnmálum og bjóða sig fram til forseta.
Hún gekk á fund Guðna Th. Jóhannessonar forseta í gær þar sem hún baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Hún mun þó áfram stýra starfsstjórn enn um sinn.
Þingfundur er á dagskrá klukkan 15 í dag og eru óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra fyrsta mál á dagskrá.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, nýr formaður Vinstri grænna og Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hafa sótt fundina þar sem áframhald stjórnarsamstarfsins hefur verið til umræðu.