Erlent

Hótar að senda 20 þúsund fíla til Þýska­lands

Atli Ísleifsson skrifar
Um 130 þúsund fílar eru nú í Botsvana og segir forseti landsins þennan mikla fjölda valda miklum vandræðum.
Um 130 þúsund fílar eru nú í Botsvana og segir forseti landsins þennan mikla fjölda valda miklum vandræðum. EPA

Forseti Botsvana hefur hótað því að senda 20 þúsund fíla til Þýskalands. Þetta er svar hans við áætlunum þýskra stjórnvalda um að herða reglur varðandi innflutning á veiddum dýrum.

Mokgweetsi Masisi, forseti Botsvana, segir í samtali við Bild að Þjóðverjar ættu að prófa að lifa með dýrunum líkt og þeir segi sjálfir íbúa Botsvana eiga að gera. „Þetta er ekkert grín.“

Masisi gagnrýnir harðlega breytingar sem þýska umhverfisráðuneytið gerði fyrr á árinu sem opnar á strangari reglur um innflutning á uppstoppuðum dýrum sem menn hafa veitt. Bendir forsetinn á að fílastofninn í Botsvana hafi margfaldast á síðustu árum og að veiðar séu mikilvægt tól til að halda stofninum í skefjum.

Forsetinn segir að þýskt innflutningsbann myndi stuðla að aukinni fátækt Botsvanamanna, en vestrænir veiðimenn greiða margir háar fjárhæðir til að öðlast veiðileyfi í landinu og taka svo með sér uppstoppuð dýrin eða skinn með sér heim og nýta sem stofustáss. 

Um 130 þúsund fílar eru nú í Botsvana og segir Masisi að fílarnir eyðileggi eignir, éti froska í stórum stíl og eigi það til að verða mönnum að bana.

Stjórnvöld í Botsvana hafa nú þegar boðið Angólamönnum að fá átta þúsund fíla og Mósambík fimm hundruð. „Við myndum vilja bjóða Þjóðverjum slíka gjöf,“ segir Masisi og bætir við að hann myndi ekki samþykkja afþökkun af hálfu Þjóðverja. 

Verðlaunaveiðar voru bannaðar í Botsvana árið 2014 en banninu aflétt fimm árum síðar eftir mótmæli íbúa. Er nú gefnir út sérstakir veiðikvótar til að stýra veiðunum sem best.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×