Lífið

Bjarni Ben, Inga Lind og miklu fleiri í golfi í sólinni

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson og Inga Lind Karlsdóttir eru meðal þeirra sem nutu lífsins um páskana.
Bjarni Benediktsson og Inga Lind Karlsdóttir eru meðal þeirra sem nutu lífsins um páskana.

Páskarnir eru búnir og það þýðir bara eitt: Vorið er komið. Ekki veðurfarslega séð en að minnsta kosti þegar litið er til mannlífsins. Það hefur nefnilega verið nóg að gera hjá þekktasta og skemmtilegasta fólki landsins.

Þannig skelltu þau Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra og eiginkona hans Þóra Margrét Baldvinsdóttir sér í golfferð á Spáni. Þar voru líka leikarahjónin Nína Dögg Filippusdóttir og Gísli Örn Garðarsson. Þau voru einmitt ítrekuð kölluð upp í kalkerfinu á Keflavíkurflugvelli og voru næstum búin að missa af flugferðinni út. Inga Lind Karlsdóttir lét sig heldur ekki vanta í sólina og á golfvellinum, steinsnar frá á eyjunni fögru Tenerife.

Það var einmitt brjálað að gera á Keflavíkurflugvelli yfir páskana og miklu fleiri þar heldur en bara þau Nína og Gísli. Þar lét Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda sig ekki vanta á leið í rómantíska ferð til Rómar með kærustunni Guðrúnu Rögnu Hreinsdóttur. Heldur ekki Hataraparið Sólbjört Sigurðardóttir og Einar Stefánsson. Anna Margrét Jónsdóttir fegurðardrottning naut sömuleiðis lífsins í þann mund sem hún var að fara til útlanda. Baldur Þórhallsson og Felix Bergsson létu sig ekki vanta í fjörinu utanlands heldur. Þeir komu aftur heim með flugi frá Berlín eftir helgina alþýðlegir á almennu farrými þar sem Baldur var með nefið ofan í símanum enda kosningabaráttan komin á fullt skrið.

Það voru ekki allir sem fóru til útlanda. Þess bar merki í sundlaugum landsins þar sem svo gott sem öll helstu stjörnur landsins nutu lífsins, meðal annars í Vesturbæjarlauginni. Þar sást Rúnar Freyr Gíslason verkefnastjóri RÚV í hrókasamræðum við þá Högna Egilsson og Björn Jörund Friðbjörnsson. Allir fastagestir í lauginni.

Þá lét annar hver leikari landsins sig ekki vanta í þessari goðsagnakenndu laug. Halldóra Geirharðsdóttir naut þar lífsins, líka Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir mögulegur forsetaframbjóðandi, Magnús Jónsson,Víkingur Kjartansson og Kjartan Guðjónsson. Þá má ekki sofa á tónlistarfólkinu sem mætti í laugina, þeim Flóna og Kalla Olgeirssyni og heldur ekki myndlistarfólkinu Finni Arnari Arnarsyni og Áslaugu Thorlacius.

Þó páskarnir snúist um sælgætis-og súkkulaðiát létu ekki allir það stoppa sig í heilsuræktinni. Sveinn Andri Sveinsson bræddi af sér páskaeggið á hlaupabretti í Laugum. Þar var líka ofurparið Logi Geirsson og Inga Tinna Sigurðardóttir á sjálfan páskadag. Birta Líf Ólafsdóttir var einnig á svæðinu, í Laugar Cafe. Örstutt frá var Sölvi Tryggvason í Laugardalslaug. Hann gekk beina leið úr útiklefanum í sjópottinn en athygli vekur að hann er elgtanaður enda nýkominn til landsins frá Asíu þar sem hann sleikti sólina á milli ísbaða.

Þrátt fyrir að fara ekki til útlanda létu margir það ekki stöðva sig í því að njóta lífsins. Sigurður Örn Hilmarsson formaður lögmannafélags Íslands tók fjölskylduna og vini með í aprés ski á Siglufirði eins og svo margir landsmenn sem nutu lífsins á Norðurlandi. Aðrir létu sér nægja að njóta lífsins í Reykjavík eins og til dæmis Jón Gunnar Jónsson forstjóri Bankasýslunnar sem naut lífsins á Jómfrúnni á föstudaginn langa.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×