Erlent

Segir alla munu heita Sato árið 2531 að ó­breyttu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sato, Suzuki, Takahashi, Tanaka, Ito, Watanabe, Yamamoto og Nakamura eru algengustu eftirnöfnin í Japan.
Sato, Suzuki, Takahashi, Tanaka, Ito, Watanabe, Yamamoto og Nakamura eru algengustu eftirnöfnin í Japan. epa/Franck Robichon

Prófessorinn Hiroshi Yoshida hefur komist að þeirri niðurstöðu að ef stjórnvöld í Japan ráðast ekki í breytingar á lögum og heimili einstaklingum að halda eftirnöfnum sínum þegar þeir ganga í hjónaband, muni allir í Japan heita Sato árið 2531.

Yoshida birti niðurstöður sínar í gær og héldu margir að um væri að ræða snjallt aprílgabb en svo er ekki.

Yoshida er prófessor í hagfræði við Tohoku-háskóla en hann segist hafa viljað freista þess að nota tölfræði til að varpa ljósi á áhrif löggjafarinnar, sem er frá 19. öld, á japanskt samfélag.

„Ef allir verða Sato munum við mögulega þurfa að ávarpa hvort annað með fornafni eða tölu,“ sagði Yoshida í samtali við dagblaðið Mainichi. „Ég held ekki að það væri góður heimur að búa í.“

Sato er nú þegar algengasta eftirnafnið í Japan en 1,5 prósent þjóðarinnar ber nafnið. Samkvæmt útreikningum Yoshida munu mál þróast þannig, að óbreyttu, að helmingur þjóðarinnar mun bera nafnið árið 2446 og allir árið 2531.

Samkvæmt lögum verða pör að velja hvaða eftirnafn þau hyggjast nota þegar þau ganga í hjónaband en í 95 prósent tilvika verður eftirnafn mannsins fyrir valinu. Stjórnvöld sæta hins vegar auknum þrýstingi um að breyta lögum og leyfa fólki að halda nafninu sínu.

Samkvæmt könnun frá 2022 sögðust um 40 vilja deila eftirnafni jafnvel þótt þeir ættu kost á því að nota áfram sitt eigið. Ef lögunum yrði breytt en það hlutféll héldi myndu „aðeins“ 7,96 prósent þjóðarinnar bera nafnið Sato árið 2531, samkvæmt útreikningum Yoshida.

Tillögur um að breyta lögunum hafa mætt andstöðu meðal íhaldsamra stjórnmálamanna, sem segja lagabreytinguna myndu grafa undan fjölskyldunni og valda ruglingi meðal barna.

Hér má finna ítarlega umfjöllun Guardian um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×