Hinn 19 ára gamli Orri Steinn er byrjaði í 4-1 sigri Íslands á Ísrael í umspili um sæti á EM 2024 á dögunum. Þá kom hann inn af bekknum í grátlegu 2-1 tapi gegn Úkraínu þegar EM draumurinn rann Íslandi úr greipum.
Þrátt fyrir ungan aldur hefur Orri Steinn spilað töluvert með FC Kaupmannahöfn á þessari leiktíð. Hann var settur út í kuldann eftir að danska úrvalsdeildin hófst að nýju eftir jólafrí en hefur fengið tækifæri í síðustu leikjum. Til að mynda lagði hann upp mark liðsins í tapi gegn Manchester City á Etihad-vellinum með glæsilegri hælsendingu.
Íslenski framherjinn er metinn á 9,4 milljónir evra eða tæplega einn og hálfan milljarð. Er hann í 9. sæti yfir verðmætustu leikmenn deildarinnar. Bakvörðurinn Elias Jelert, samherji Orra Steins, er verðmætastur. Talið er næsta öruggt að hann verði seldur til stærra félags nú í sumar. Sama á við um Roony Bardghji sem er í 3. sæti listans.
Alls eru fimm leikmenn FCK meðal tíu verðmætustu leikmanna deildarinnar. Hinir tveir eru markvörðurinn Kamil Grabara – sem gengur til liðs við þýska úrvalsdeildarfélagið Wolfsburg í sumar – og vængmaðurinn Elias Achouri.
Orri Steinn hefur komið við sögu í 20 leikjum í deild og bikar á tímabilinu. Hefur hann skorað í þeim fimm mörk og gefið fimm stoðsendingar.