Um­fjöllun og við­töl: Valur - Breiða­blik 106-94 | Topp­liðið sýndi klærnar nógu mikið gegn Blikum

Hjörvar Ólafsson skrifar
Kristófer Acox í leik með Val
Kristófer Acox í leik með Val Vísir/Hulda Margrét

Topplið Vals vann öruggan 106-94 sigur þegar liðið mætti föllnum Blikum í næstsíðustu umferð Subway-deildar karla í körfubolta í N1-höllinni að Hlíðarenda í kvöld.

Blikar, sem eru nú þegar fallnir úr deildinni, hófu leikinn betur en með Keith Jordan í broddi fylkingar voru gestirnir 27-31 yfir eftir fyrsta leikhluta. Jordan héldu engin bönd og hann skoraði 16 stig í þeim leikhluta.

Það var jafn rislítil spilamennskan hjá toppliði Vals í öðrum leikhluta en það var líkt og leikmenn liðsins héldu að sigurinn kæmi bara að sjálfu sér. Leikmenn og þjálfarar liðsins beindu pirringi sínum að dómurum leiksins í stað þess að líta eigin barm og bæta eigin frammistöðu.

Staðan í hálfleik var 51-53 Breiðabliki í vil en þegar leikurinn var hálfnaður hafði Keith Jordan sallað niður 22 stigum. Fátt gladdi augað hjá heimamönnum sem ætluðu greinilega ekki að eyða neinni óþarfa orku í þennan leik.

Áfram var jafnt á öllum tölum framan af þriðja leikhluta en liðin skiptust þar á að leiða. Valsmenn vöknuðu hins vegar loksins til lífsins af værum blundi undir lok leikhlutans. Þegar leikhlutanum lauk var Valur 19 stigum yfir, 89-90. Leikmenn Vals bættu í ákafann í varnarleik sínum og skiptu einnig um gír á sóknarhelmingnum.

Valsarar gerðu nóg í fjórða leikhluta til þess að skila þægilegum sigri í heimahöfn. Blikar tók smá áhlaup en það var ekki nóg til þess að velgja Valsliðinu almennilega undir uggum. Lokatölur í leiknum 104-89 Valsmönnum í vil.

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals, á hliðarlínunni í leik hjá Valsliðinu. Vísir/Vilhelm

Finnur Freyr: Náðum upp stemmingu í þriðja leikhluta

„Þetta var frekar flatt framan og ég get alveg viðurkennt það að ég finn það á leikmönnum liðsins að menn eru svolítið að bíða eftir því að úrslitakeppnin byrji. Við náðum upp góðri stemmingu og ákafa í varnarleikinn í þriðja leikhluta og það skilaði þessum sigri,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals, um frammistöðu og hugarfar sinna manna.

„Við gerðum nóg til þess að vinna hérna í kvöld en fram undan er hörkuleikur við Njarðvík í lokaumferð deildarkeppninnar. Það er alveg ljóst við þurfum að gera mun betur en í kvöld ef við ætlum að ná í sigur í þeim leik. Nú er það bara næsta verkefni að gíra okkur upp í þann slag og klára deildarkeppnina með stæl,“ sagði Finnur Freyr um framhaldið. 

Ívar Ásgrímsson: Flott frammistaða stærstan hluta leiksins

„Við spiluðum bara mjög vel lungann úr leiknum og við göngum bara sáttir frá borði. Við náðum að halda rúllinu í sóknarleik þeirra í skefjum í fyrri hálfleik og Keith Jordan var frábær á sóknarhelmingnum okkar,“ sagði Ívar Ásgrímsson, þjálfari Breiðabliks. 

„Við vissum vel að þeir myndu mæta grimmari til leiks í þriðja leikhluta og okkur gekk verr að komast framhjá þeim maður á móti manni og bakvið þá í seinni hálfleik. Við erum með ungt lið í höndunum og takmörk hvað maður ætlast til að þeim. Það var margt jákvætt hjá okkur að þessu sinni þrátt fyrir tapið,“ sagði Ívar enn fremur upplitsdjarfur.

Ívar Ásgrímsson bar höfuðið hátt þrátt fyrir ósigurinn.  Vísir/Bára Dröfn

Af hverju vann Valur?

Valur sýndi sitt rétta andlit í nokkrar mínútur í þriðja leikhluta og það var nóg til þess að kvöldverkið væru stigin tvö í pokann góða. Eins og hendi væri veifað kveikti Valsvörnin á sér og í kjölfarið komu stemmingskörfur á hinum enda vallarins. Valsmenn settu nákvæmlega jafn mikið í þann leik og nauðsynlega þurfti til þess að landa sigrinum.

Hverjir sköruðu fram úr?

Taiwo Badmus og Kristinn Pálsson skiluðu flestum stigum á töfluna fyrir Val og þar á eftir komu Kristófer Acox og Justas Tamulis. Hjá Blikum var Keith Jordan fremstur á meðal jafningja með sín 36 stig en Zoran Vrkic og Ólafur Eyjólfsson lögðu einnig töluvert í púkkinn. 

Hvað gekk illa?

Valsmönnum gekk illa að finna mojoið sitt og hrista af sér Blikana sem spiluðu án pressu framan af þessum leik. Pirringur og hundur var í leikmönnum og þjálfurum Vals sem fundu svo léttleikann og kraftinn innra með sér í þriðja leikhluta. 

Hvað gerist næst?

Valur etur kappi við Njarðvík í Ljónagryfjunni lokaumferð deildarinnar á fimmtudaginn í næstu viku. Valur hefur fyrir þann leik tryggt sér deildarmeistaratitilinn þar sem liðið hefur 34 stig á toppnum á meðan Njarðvík og Keflavík eru jöfnt að stigum með 30 stig hvort lið þar fyrir neðan. Breiðablik kveður hins vegar úrvalsdeildina í bili með því að leiða saman hesta sína við Stjörnuna í Umhyggjuhöllinni. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira