Fótbolti

Rugluðust á Heimi Hall­gríms og Guð­mundi Hreiðars

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heimir Hallgrímsson og Guðmundur Hreiðarsson sjást hér með öllu þjálfarateymi Jamaíka þegar þjóðsöngur er spilaður fyrir landsleik.
Heimir Hallgrímsson og Guðmundur Hreiðarsson sjást hér með öllu þjálfarateymi Jamaíka þegar þjóðsöngur er spilaður fyrir landsleik. AP/Julio Cortez

Heimir Hallgrímsson hefur vakið athygli fyrir að gera flotta hluti með landslið Jamaíka en það getur greinilega verið stundum erfitt að þekkja Íslendingana hjá jamaíska landsliðinu í sundur.

Men in Blazers er vinsæll bandarískur fótboltaþáttur sem á nú sitt heimili á samfélagsmiðlum. Roger Bennett og félagar fylgjast vel með bandaríska landsliðinu og mótunum sem liðið tekur þátt í.

Bandaríska landsliðið vann Þjóðadeild Norður- og Mið-Ameríku eftir að hafa sloppið heldur betur með skrekkinn í undanúrslitaleik á móti vængbrotnu liði Jamaíka.

Heimir setti leikinn vel upp fyrir landslið Jamaíka og hefur fengið hrós fyrir skipulag og taktík jamaíska landsliðsins. Þar á meðal frá Roger Bennett og félögum.

Men in Blazers fólkið þekkir þó ekki alveg muninn á íslensku þjálfurum Jamaíka. Heimir er með Guðmund Hreiðarsson með sér sem markmannsþjálfara.

Í hrósfærslu eftir frammistöðu Jamaíka á mótinu þá birti Men in Blazers mynd af leikmönnum fagna ásamt því að birta mynd af íslenska þjálfaranum fagna með krepptan hnefa.

Málið var bara að myndin átti að vera af Heimi en var það alls ekki. Men in Blazers áttuðu sig ekki á því að þeir birtu mynd af Guðmundi Hreiðarssyni þegar þeir voru að hrósa Heimi eins og sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×