Fótbolti

Ingi­björg enn nær falli eftir tap fyrir landsleikjatörn

Sindri Sverrisson skrifar
Ingibjörg Sigurðardóttir var fyrirliði Vålerenga í Noregi en fór svo til Duisburg í Þýskalandi í vetur.
Ingibjörg Sigurðardóttir var fyrirliði Vålerenga í Noregi en fór svo til Duisburg í Þýskalandi í vetur. Getty

Fátt virðist geta komið í veg fyrir að lið Ingibjargar Sigurðardóttur, Duisburg, falli úr efstu deild Þýskalands í fótbolta en liðið tapaði fallslag í dag.

Duisburg er langneðst í deildinni með aðeins fjögur stig í 12. sæti en liðið tapaði 3-0 á heimavelli gegn Leipzig í dag.

Leipzig var í þriðja neðsta sæti fyrir leikinn en er núna með 16 stig í 9. sæti og skilur Duisburg eftir í enn verri málum en áður, tíu stigum frá næsta örugga sæti þegar aðeins fimm umferðir eru eftir.

Ingibjörg, sem kom til Duisburg í janúar, spilaði allan leikinn í dag en gestirnir frá Leipzig komust í 2-0 eftir aðeins þriggja mínútna leik og bættu svo við þriðja markinu um miðjan seinni hálfleik.

Alexandra í þriðja sæti þrátt fyrir tap

Liðsfélagi Ingibjargar úr landsliðinu, Alexandra Jóhannsdóttir, var í byrjunarliði Fiorentina sem varð einnig að sætta sig við 3-0 tap á heimavelli, gegn Inter í ítölsku A-deildinni.

Alexandra Jóhannsdóttir varð að sætta sig við tap í dag.Gabriele Maltinti/Getty Images

Alexöndru var skipt af velli á 70. mínútu, rétt eftir að Inter skoraði sitt þriðja mark.

Liðin eru í hópi þeirra fimm efstu á Ítalíu sem nú spila í meistarahluta deildarinnar. Fiorentina er með 39 stig í 3. sæti en Inter komst með sigrinum upp fyrir Sassuolo í 4. sæti og er með 30 stig. Roma er efst með 54 stig og Juventus, lið Söru Bjarkar Gunnarsdóttur, næst með 44 stig.

Ingibjörg og hennar liðsfélagar eru nú komnar í hlé í Þýskalandi vegna komandi landsleikja, þar sem Ísland mætir Póllandi og Þýskalandi í A-deild Þjóðadeildarinnar. Alexandra á hins vegar eftir leik við Juventus næsta laugardag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×