Enski boltinn

Sven-Göran fær sína hinstu ósk upp­fyllta í dag: „Ég er mjög heppinn“

Aron Guðmundsson skrifar
Sven-Göran á blaðamannafundi á Anfield, heimavelli Liverpool, í gær.
Sven-Göran á blaðamannafundi á Anfield, heimavelli Liverpool, í gær. Mynd: Liverpool FC

Sven-Göran Eriks­son, fyrrum lands­liðs­þjálfari Eng­lands og stuðnings­maður Liver­pool til lífs­tíðar, talaði um það á blaða­manna­fundi í gær hversu á­nægju­legt það sé fyrir sig að fá að stýra liði goð­sagna Liver­pool á Anfi­eld síðar í dag. Sven-Göran greindi frá því í janúar að hann hefði greinst með krabba­mein í brisi og að hann ætti væntan­lega innan við ár eftir ó­lifað.

Svíinn geð­þekki, sem á að baki langan og far­sælan feril sem þjálfari bæði með lands- og fé­lags­liðum, fór í viðtal hjá sænska miðlinum P1 skömmu eftir að hafa fengið veður af krabba­meins­greiningunni.

„Það er hægt að hægja á því en meinið er ekki skurð­tækt. Ég veit að ég á í besta falli ár eftir, í versta falli minna, kannski að­eins lengra. Læknarnir geta ekki verið vissir og sagt að þetta gerist þennan dag og þar fram eftir götunum. Það er betra að vita þetta ekki.“

Sven-Göran hefur lengi vel átt sér þann stóra draum að stýra liði Liver­pool á Anfi­eld og sá draumur mun rætast í dag er hann stýrir liði goð­sagna fé­lagsins á móti liði skipað goð­sögnum úr sögu hollenska fé­lagsins Ajax.

„Þetta er draumi líkast,“ sagði Sven-Göran á blaða­manna­fundi á Anfi­eld í gær. „Þegar að ég var þjálfari dreymdi mig alltaf um að verða knatt­spyrnu­stjóri Liver­pool. Það gerðist aldrei en ég var ná­lægt því einu sinni.“

Klippa: Sven Göran fær sína hinstu ósk uppfyllta í dag

Hann trúði því ekki fyrst þegar að for­ráða­menn Liver­pool settu sig í sam­band við son hans Johan og viðruðu þá hug­mynd við hann að Sven-Göran myndi stýra liði Liver­pool á Anfi­eld.

„Ég er mjög, mjög á­nægður og mjög heppinn að upp­lifa það að upp­lifa þakk­læti , gagn­vart þeim hlutum sem ég gerði vel á mínum ferli, á meðan að ég er lifandi. Það er ekki venju­legt. Maður deyr og fólk fer í jarða­för þar sem að það þakkar manni fyrir og segir manni hversu góður maður var. Ég er á­nægður. Fólk segir þessa hluti við mig á meðan að ég er enn lifandi.“

Eriks­son kom víða við á löngum þjálfara­ferli og vann titla í Sví­þjóð, Portúgal og á Ítalíu. Hann gerði Lazio meðal annars að ítölskum meisturum 2000, eftir að hafa unnið Evrópu­keppni bikar­hafa með liðinu, og ári seinna tók hann við enska lands­liðinu. Svíinn stýrði því á þremur stór­mótum áður en hann hætti með það 2006. Síðasta þjálfara­starf Eriks­son, sem er 76 ára gamall, var hjá lands­liði Filipps­eyja árið 2019.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×