Fótbolti

Heimir andar­taki og ó­trú­legu sjálfsmarki frá því að slá út Banda­ríkin

Sindri Sverrisson skrifar
Heimir Hallgrímsson hefði gjarnan viljað heyra lokaflautið örlítið fyrr í gær, og lét dómarana vita af því.
Heimir Hallgrímsson hefði gjarnan viljað heyra lokaflautið örlítið fyrr í gær, og lét dómarana vita af því. Getty/Omar Vega

Afar slysalegt sjálfsmark á allra síðustu stundu kom í veg fyrir að Heimir Hallgrímsson og hans menn í Jamaíka næðu að slá út Bandaríkin, á útivelli, í undanúrslitum Þjóðadeildar CONCACAF, eða Mið- og Norður-Ameríku.

Jamaíska liðið var af ýmsum sökum án stóru stjarnanna sinna í leiknum en var samt hársbreidd frá því að vinna 1-0 sigur. Michail Antonio, framherji West Ham, dró sig úr hópnum vegna meiðsla, Demarai Gray og Shamar Nicholson voru í leikbanni vegna gulra spjalda, og þeir Leon Bailey hjá Aston Villa og framherjinn Trivante Stewart í agabanni hjá Heimi.

Engu að síður var Jamaíka yfir í leiknum í gær í tæpar 90 mínútur, eftir mark frá Gregory Leigh í upphafi leiks, en Bandaríkin náðu að jafna á síðustu stundu þegar Cory Burke skoraði sjálfsmarkið slysalega sem sjá má hér að neðan.

Bandaríkjamenn höfðu svo yfirhöndina í framlengingunni og tryggðu sér 3-1 sigur með tveimur mörkum frá Haji Wright.

„Mjög, mjög sárt fyrir strákana“

Bandaríkin mæta því Mexíkó í úrslitaleik keppninnar en Heimir og hans menn eiga fyrir höndum leik um bronsverðlaunin, við Panama á sunnudagskvöld.

„Mér fannst framkvæmdin hjá strákunum, í ljósi forfallanna, vera stórkostleg. Taktíst voru þeir góðir og varnarlega voru þeir með allt á tandurhreinu,“ sagði Heimir eftir leik, samkvæmt Jamaica Gleaner.

„Mér fannst þeir [Bandaríkjamenn] vera að gefast upp í lokin. Við tókum allan kraft úr þeim. Og fengum færi og hefðum átt að gera út um leikinn.

Þetta er mjög, mjög sárt fyrir strákana. Að standa sig svona vel í níutíu mínútur en fá á sig mark með síðustu snertingu leiksins. Ég vorkenni þeim svakalega en ég vil hrósa þeim fyrir þennan leik, gegn Bandaríkjunum á þeirra heimavelli og án svo margra leikmanna,“ sagði Heimir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×