Erlent

E­verest-farar skikkaðir til að hirða eftir sig skítinn og safna í poka

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Enn eykst flækjustigið við að ganga á topp Everest.
Enn eykst flækjustigið við að ganga á topp Everest. Getty/Frank Bienewald

Óhemjumikið magn sorps og úrgangs hefur safnast saman á Everest síðustu ár og áratugi, samfara auknum ágangi klifurgarpa á fjallið. Nú er svo komið að yfirvöld á svæðinu hafa fengið nóg og verða menn héðan í frá skikkaðir til að hirða upp eftir sig skítinn.

Bókstaflega.

Ef það var ekki nógu mikil áskorun fyrir að ganga örna sinna í frosti og við miður hagfelldar aðstæður þá bætist nú enn ofan á það en menn þurfa nú að fjarlægja saurinn, setja í lífrænan poka og taka með sér.

Allan Cohr, ástralskur fjallgöngumaður og eigandi Everest One, sem skipuleggur ferðir á fjallið, segir að öllum sem hyggja á toppinn verði úthlutað ákveðnu magni poka, sem innihaldi efni sem geri hægðirnar harðar og komi í veg fyrir lykt.

Pokana á að nota í búðum I til IV og alls staðar annars staðar þar sem náttúran kallar en pokunum verður síðan safnað saman í búðum II og flogið með þá í burtu.

„Þeir segjast munu hafa eftirlit með pokunum en hvort þeir gera það veit ég ekki,“ hefur Guardian eftir Cohr.

Áður var ætlast til þess að menn mokuðu holu fyrir kúkinn og aftur yfir hann en reglan virðist ekki hafa verið virt. Cohr segir saurinn þess í stað hafa safnast fyrir á fjallinu, frosinn til eilífðarnóns, en aðstæður séu þannig að hann brotnar ekki niður.

Fjallagarpurinn og rithöfundurinn Alan Arnette segir pokana löngu tímabæra en hitt sé annað mál hvort nýju reglunum verði fylgt eftir; yfirvöld í Nepan hafi átt það til að gefa út alls konar yfirlýsingar en fylgja þeim svo ekki eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×