Í tilkynningu á vef Veðurstofu Íslands segir að spáð sé norðaustan til norðan stormi með snjókomu í nótt og á morgun, föstudag. Þegar líður á nóttina snúist vindur meira til norðurs miðað við nýjustu spár og kólnar.
Á föstudag sé gert ráð fyrir norðaustan til norðan stórhríð, skafrenningi með takmörkuðu eða lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum og að vegir undir bröttum fjallshlíðum lokist vegna snjóflóða. Gert sé ráð fyrir að veðrið gangi niður aðfaranótt laugardags og á laugardag dragi úr ofankomu í kólnandi veðri.
Ekki sé talin hætta í byggð að svo stöddu en aðstæður geti breyst þegar líður á.
Fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám. Snjóflóðavakt Veðurstofunnar fylgist vel með aðstæðum.