Sport

Harmi slegin en þau voru hætt saman

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aryna Sabalenka sést hér á æfingu í Miami í gær. Hún ætlar sér að keppa á morgun á Opna Miami mótinu.
Aryna Sabalenka sést hér á æfingu í Miami í gær. Hún ætlar sér að keppa á morgun á Opna Miami mótinu. AP/Rebecca Blackwell

Önnur besta tenniskona heims hefur nú tjáð sig opinberlega eftir óvænt andlát íshokkíþjálfarans og fyrrum íshokkkíleikmannsins Konstantin Koltsov.

Hin hvít-rússneska Aryna Sabalenka vann fyrsta risamót ársins í Ástralíu og er í öðru sæti á heimslistanum. Hún og Koltsov voru einu sinni par. Fyrstu fréttir voru um að hann væri kærasti hennar en hún segir það ekki rétt því þau voru hætt saman.

„Andlát Konstantin er óhugsandi harmleikur og þótt við séum ekki lengur saman þá er ég harmi slegin,“ skrifaði Sabalenka á samfélagsmiðla.

Hvít-rússneska íshokkísambandið staðfesti lát Koltsov og í yfirlýsingu frá lögreglunni í Miami-Dade kom fram að hann hafi tekið sitt eigið líf. Koltsov var 42 ára gamall.

Sabalenka bað einnig um að hún og fjölskylda hans fái frið til að vinna úr þessum skelfilegum fréttum.

Sabalenka er nú að undirbúa sig fyrir leik í Opna Miami mótinu í tennis þar sem hún spilar á morgun.

Það er ekki vitað annað en að hún muni mæta í þann leik þrátt fyrir aðstæðurnar.

Vert er að taka fram að í þessari grein er fjallað um sjálfsvíg. Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Píeta samtökin. Síminn hjá Pieta-samtökunum er jafnframt opinn allan sólarhringinn og er 552-2218 og vefsíðan pieta.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×