Sport

Ást­maður næstbestu tenniskonu heims látinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aryna Sabalenka vann Opna ástralska meistaramótið á dögunum.
Aryna Sabalenka vann Opna ástralska meistaramótið á dögunum. Getty/Andy Cheung

Fyrrum leikmaður í NHL-deildinni í íshokkí og kærasti tennisstjörnunnar Arynu Sabalenka er allur.

Hvít-rússneska íshokkísambandið staðfesti fréttirnar að Konstantin Koltsov hafi látist.

Aryna Sabalenka er í öðru sæti á heimslistanum í tennis og vann Opna ástralska risamótið á dögunum og það annað árið í röð. Hún var sautján árum yngri en kærastinn.

Hvít-rússneska íshokkísambandið sendi frá sér stutta tilkynningu en þar kom ekki fram hvernig eða hvar Koltsov lést.

Koltsov spilaði í þrjú tímabil í NHL-deildinni með Pittsburgh Penguins og tók einnig þátt í tveimur Ólympíuleikum með landsliði Hvíta-Rússlands.

Koltsov, sem var 42 ára gamall, hafði einnig verið þjálfari bæði hjá félagsliði og hvít-rússneska landsliðinu.

„Hann var sterk og jákvæð persóna, elskaður og virtur af leikmönnum, kollegum og stuðningsmönnum. Hvíl í friði,“ segir í yfirlýsingu frá íshokkífélaginu Salavat Julajev Ufa en Koltsov var aðstoðarþjálfari hjá félaginu ásamt því að vera landsliðsþjálfari.

Konstantin Koltsov eignaðist þrjú börn með eiginkonu sinni Juliu en þau skildu árið 2020. Fyrst fréttist af sambandi hans og tennisstjörnunnar Sabalenku í júní 2021.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×