Enski boltinn

Klopp ó­sáttur við að fá ekki eina skiptingu í við­bót

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp fylgist með þegar Erik ten Hag tekur Kobbie Mainoo af velli í leiknum í gær.
Jürgen Klopp fylgist með þegar Erik ten Hag tekur Kobbie Mainoo af velli í leiknum í gær. Getty/Robbie Jay Barratt

Jürgen Klopp og lærisveinar hans féllu út úr enska bikarnum í gær eftir dramatískt 4-3 tap á móti Manchester United í leik liðanna í átta liða úrslitum á Old Trafford.

Á lokakafla leiksins vildi Klopp gera eina breytingu til viðbótar. Liðið hans var búið að spila marga leiki að undanförnu og nokkrir leikmenn nýkomnir til baka eftir meiðsli.

Klopp mátti hins vegar ekki skipta sjötta varamanninum inn á. Það má hins vegar í Evrópukeppnunum og í enska deildarbikarnum.

„Ég hef ekki hugmynd af hverju enska knattspyrnusambandið leyfir ekki sjöttu skiptinguna í framlengingu,“ sagði Jürgen Klopp við BBC eftir leikinn.

„Ég fékk að vita þetta fyrir leik en hreinlega gleymdi því,“ sagði Klopp.

„Í öllum öðrum keppnum er sjötta skiptingin leyfð en enska knattspyrnusambandið hlýtur að ætla að gera þetta aðeins erfiðara,“ sagði Klopp.

Liverpool var 3-2 yfir í framlengingunni en Manchester United tryggði sér sigurinn með mörkum á 112. og 120.+1 mínútu. Það er því vel hægt að skilja það að Klopp hafi viljað setja ferskar fætur inn á völlinn en reglur eru reglur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×