Körfubolti

Flottur leikur Elvars gegn risaliðinu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Elvar Már átti ágætan leik í dag í tapi PAOK.
Elvar Már átti ágætan leik í dag í tapi PAOK. @BASKETBALLCL

Elvar Már Friðriksson átti fínan leik fyrir gríska liðið PAOK sem tapaði fyrir Panathinaikos í grísku úrvalsdeildinni í körfuknattleik í dag.

PAOK var í 9. sæti deildarinnar fyrir leikinn í dag en Panahinaikos, sem er afar sigursælt lið bæði í grískum og evrópskum körfubolta, var í öðru sæti en gat tyllt sér á toppinn með sigri.

Fyrri hálfleikur var jafn og liðin skiptust á að vera með forystuna en aldrei munaði meira en örfáum stigum á þeim. Staðan í hálfleik var 46-42 gestunum í Panahinaikos í vil og leikurinn í járnum.

Í síðari hálfleik virtist svipað ætla að vera uppi á teningunum en gestirnir komu sér í sex stiga forystu rétt fyrir lok leikhlutans og gáfu tóninn fyrir það sem koma skyldi. Í fjórða leikhlutanum náði Panathinaikos fljótlega níu stiga forskoti og mest fór munurinn upp í fimmtán stig.

Það var of mikið fyrir Elvar og félaga að brúa og Panathinaikos lokaði leiknum nokkuð þægilega. Lokatölur 89-73.

Elvar Már átti eins og áður segir fínan leik. Hann skoraði 12 stig og gaf 9 stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×