Enski boltinn

Arsenal gæti neitað Henry og bannað Saliba að fara

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Thierry Henry er goðsögn hjá Arsenal en nýtur engra sérstakra fríðinda sem landsliðsþjálfari Ólympíuliðs Frakklands.
Thierry Henry er goðsögn hjá Arsenal en nýtur engra sérstakra fríðinda sem landsliðsþjálfari Ólympíuliðs Frakklands.

Arsenal mun að öllum líkindum ekki leyfa Thierry Henry að velja William Saliba í franska landsliðshópinn fyrir Ólympíuleikana í París í sumar. 

Thierry Henry mun þjálfa franska Ólympíuliðið sem verður samansett af 23 ára og yngri leikmönnum, líkt og Saliba, auk þriggja eldri leikmanna sem verða líklega Kylian Mbappé, Oliver Giroud og Antoine Griezmann. 

Saliba var valinn í liðið fyrir Ólympíuleikana í Tókýó 2021 (ÓL 2020) en dróg sig úr hópnum til að geta tekið þátt í undirbúningstímabili Arsenal. 

Greint er frá því að hann muni ekki sjálfur draga sig úr hópnum í þetta sinn en samkvæmt reglum hefur Arsenal fullt leyfi til að banna Saliba að keppa á Ólympíuleikunum þar sem þetta er ungmennamót og ekki haldið af FIFA. 

Breski fjölmiðillinn Mirror segir að Arsenal muni nýta sér stöðu sína og banna Saliba að taka þátt. 

Þeir munu ekki geta bannað Didier Deschamps að velja Saliba í landsliðshópinn fyrir EM í Þýskalandi sem fer fram frá 14. júní til 14. júlí. Ólympíuleikarnir hefjast tíu dögum síðar, 24. júlí, og mun ljúka 9. ágúst, viku áður en enska úrvalsdeildin fer af stað. 

Frakklandi er spáð góðu gengi á báðum mótum og gæti vel farið alla leið. Komist Frakkland í báða úrslitaleiki yrðu það þrettán aukataldir leikir ofan á venjulegt keppnistímabil Saliba hjá Arsenal. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×