Enski boltinn

Grætti bolta­strák þegar Coventry skoraði sigur­markið

Smári Jökull Jónsson skrifar
Mark Robins knattspyrnustjóri Coventry ásamt markmannsþjálfaranum Aled Williams.
Mark Robins knattspyrnustjóri Coventry ásamt markmannsþjálfaranum Aled Williams. Vísir/Getty

Coventry vann magnaðan sigur á Wolves í 8-liða úrslitum ensku bikarkeppninnar í gær. Knattspyrnustjóri liðsins fékk þó gagnrýni fyrir framkomu sína í leiknum.

Leikur Coventry og Wolves í ensku bikarkeppninni í gær hafði allt það sem frábær bikarleikur á að hafa. Úlfarnir virtust vera að tryggja sér sæti í undanúrslitum en Coventry, sem leikur í næst efstu deild, skoraði tvö mörk í uppbótartíma og stal sigrinum.

Eftir leikinn fékk knattspyrnustjóri Coventry Mark Robins á sig gagnrýni fyrir framkomu sína í leiknum. Þegar hann fagnaði sigurmarki liðsins sneri hann sér í átt að boltastrák við hliðarlínuna og öskraði af gleði. Hann faðmaði síðan samstarfsmann sinn áður en hann sneri sér aftur að boltastráknum og kreppti hnefann.

Eftir atvikið kom starfsmaður Wolves að Robins og ræddi málið við Robins.

„Það var mikilvægt fyrir mig að ræða við hann. Hann baðst afsökunar en að fagna í andlitið á ungum dreng eins og hann gerði, mér finnst það ógeðslegt. Strákurinn er mjög leiður og þetta á ekki að gerast. Þeir eru bara að vinna sína vinnu.“

Robins baðst eins og áður segir afsökunar eftir leik en var þó ekki lengi að segja blaðamönnum frá sinni hlið á málinu. Hann vildi meina að boltastrákurinn væri viljandi að eyða tíma.

„Áður en þetta gerðist var boltastrákur með bolta í höndunum og lét hann detta í jörðina og gekk í burtu. Með bros á vörum. Það pirraði mig virkilega. En hann er barn og ég biðst skilyrðislaust afsökunar.“

Síðan Robins tók við starfi knattspyrnustjóra árið 2017 hefur Coventry gengið vel og komist tvisvar upp um deild og er nú í undanúrslitum bikarsins í fyrsta sinn síðan árið 1987. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Robins kemst í fréttirnar því hann skammaði leikmenn sína fyrir að hafa farið í leikinn „Steinn, skæri, blað“ þegar skera átti úr um hver ætti að taka vítaspyrnu í leik liðsins í febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×