Fótbolti

Sau­tján ára varnar­maður Barcelona valinn í lands­liðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pau Cubarsí Peredes sést hér þegar hann var með sautján ára landsliðinu á EM á síðasta ári.
Pau Cubarsí Peredes sést hér þegar hann var með sautján ára landsliðinu á EM á síðasta ári. Getty/Ben McShane

Miðvörðurinn ungi Pau Cubarsí hefur slegið í gegn með Barcelona í síðustu leikjum og nú er búið að velja strákinn í spænska landsliðið.

Hinn sautján ára gamli Cubarsí hefur verið fastamaður í miðri vörn Börsungar og átti mjög góðan leik þegar liðið komst áfram í Meistaradeildinni eftir sigur á Napoli í vikunni.

Cubarsí er í spænska landsliðshópnum sem valinn var í dag fyrir vináttulandsleiki við Kólumbíu og Brasilíu. Hann kom inn í aðallið Barcelona í janúar og hefur ekki litið til baka síðan. Cubarsí er að koma upp í gegnum unglingastarf Katalóníufélagsins.

Annar kornungur Barcelona leikmaður er einnig í hópnum en það er hinn sextán ára gamli Lamine Yamal. Lamine skoraði sitt fyrsta landsliðsmark síðasta haust.

„Við öll sem höfum horft á Pau spila vitum hvernig leikmaður hann er og getur orðið. Frammistaða hans kemur okkur ekki á óvart eins og sumum öðrum. Hann hefur mikla möguleika. Við horfum ekki á aldur manna heldur hvernig þeir standa sig. Pau Cubarsí er á góðum stað og við erum spenntir fyrir að vinna með honum. Ég vil hafa hann í landsliðinu í langan tíma,“ sagði landsliðsþjálfarinn Luis de la Fuente. ESPN segir frá.

„Ég er ánægður með að geta valið þessa ungu leikmenn í hópinn því með því er framtíð spænska fótboltans er tryggð. Þessir tveir leikmenn eru báðir mjög sérstakir. Það er ekki vani að hafa sextán og sautján ára stráka í landsliðinu. Við höfum valið þá af sannfæringu og erum fullvissir um réttmæti þess. Þeir eru tilbúnir og við erum ekki hræddir að velja þá,“ sagði De la Fuente.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×