Á dagskrá heimsóknarinnar eru fundir með stjórnmálamönnum landsins auk þess sem fyrirhugað er að heimsækja fyrirtæki og stofnanir. Þingmennirnir heimsóttu Guðna Th. Jóhannesson forseta Íslands á Bessastöðum í dag og ítrekuðu þakklæti sitt.
„Við erum afar þakklát fyrir að Ísland tók þátt í söfnuninni sem fór fram 8. desember í fyrra. Söfnunin var til hjálpar úkraínskum börnum. Ísland skrifaði einnig undir yfirlýsinguna um söfnunina. Við vonum að sama góða niðurstaðan náist við að ná aftur þeim úkraínsku borgurum sem Rússland nam ólöglega á brott,“ sagði Olga Strepochenko, yfirmaður alþjóðasamskipta og Evrópusamvinnu hjá úkraínska þinginu, á Bessastöðum í dag.
„Þeir leita eftir frekari stuðning hvar sem hann er hugsanlega að fá. Sú er sannarlega raunin hér á Íslandi, ég heyrði það á máli þeirra. Þeim hefur þótt vænt um að finna það meðal ráðamanna og almennings,“ segir Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands.

„Nú er brýnt að við sem unnum friði, öryggi, jafnréttindum og mannréttindum látum það í ljós og gerum það sem í okkar valdi stendur til að sá ráðamaður og það ríki sem beitir ofbeldi af þessu tagi fái ekki að komast upp með það.“
Inntur eftir því hvort Íslendingar séu að gera nóg segir Guðni stuðningur Íslendinga við Úkraínu augljós, hér hafi fólki verið veitt skjól.
„Ég veit ekki betur en að upp til hópa þyki Úkraínumönnum sem Íslendingar hafi tekið vel á móti þeim. Við höfum líka reynt að styðja við bakið á Úkraínumönnum að ýmsu leiti þannig að ég finn ekki fyrir öðru en þakklæti í huga þessara góðu gesta sem komu við á Bessastöðum í dag.“