Síðastliðinn föstudag lenti hópur 72 Palestínumanna á Keflavíkurflugvelli en þriggja manna sendinefnd utanríkisráðuneytisins og utanríkisráðherra tókst með diplómatískum leiðum í síðustu viku að koma þessum stóra hópi yfir Rafah-landamærastöðina og voru miklir fagnaðarfundir þegar fjölskyldur sameinuðust í Reykjavík fyrir helgi.

Stjórnvöld lögðu fram lista með nöfnum dvalarleyfishafanna í febrúar en frá því sá listi var lagður fram hefur þeim fjölgað sem hafa dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli fjölskyldusameiningar en það er einkum vegna þeirra sem tvær íslenskar konur eru enn í sjálfboðavinnu úti í Kaíró í Egyptalandi.
„Við erum svona að fara að huga að því ljúka okkar aðkomu að þessu verkefni í ljósi þess að þessir dvalarleyfishafar eru nú flestir komnir. Íslensk stjórnvöld skildu eftir hluta af þeim hópi og það er nú ástæðan fyrir því að við erum hér enn en okkur hefur tekist núna með þeim sem komust á lista í dag að ná 49 einstaklingum sem voru utan þessa lista íslenskra stjórnvalda,“ segir María Lilja Þrastardóttir, sjálfboðaliði.
Hún er bjartsýn á að á næstu dögum komist fólkið yfir landamærin en hún segir að vanalega taki það um viku til tíu daga fyrir fólk að fá leyfi til að komast yfir landamærin frá því nöfn þeirra komast á lista. Hún segist fegin að stór hópur hafi komist til Íslands á dögunum en skilur ekki hvers vegna stjórnvöld hafi ekki hjálpað öllum.
„Það er náttúrulega stórkostlega ámælisvert að íslensk stjórnvöld hafi farið heim án þess að tryggja öryggi þessa fólks, og þessa hóps og án þess að gefa nokkuð út um það hvort þau hafi í hyggju að snúa til baka eða stuðla með einhverum hætti að því að þau kæmust í öruggt skjól.“