Erlent

Um­mæli páfa um á­byrgð Úkraínu vekja hörð við­brögð

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Páfinn við bænakall í morgun.
Páfinn við bænakall í morgun. EPA

Ummæli sem Frans páfi lét falla í viðtali um að Úkraínumenn ættu að hafa kjarkinn til þess að stilla til friðar og binda enda á stríðið gegn Rússlandi hafa vakið hörð viðbrögð. Stjórnmálamenn frá bæði Úkraínu og Evrópu hafa fordæmt ummælin. 

Í viðtali sem birtist í svissneska miðlinum RTS segir páfinn að Úkraínumenn „ættu að hafa kjarkinn til þess að veifa hvíta fánanum og efla til friðarviðræðna“. Bút úr viðtalinu má nálgast á vef The Guardian

Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu gagnrýndi ummælin í samfélagsmiðlafærslu í dag. „Fáninn okkar er gulur og blár. Við lifum og deyjum með þeim fána. Við munum aldrei veifa öðrum fána en honum,“ sagði hann sem vísan til ummæla páfans um hvíta fánann.

Hann biðlaði til páfans að halda sig á hlið hins góða og ekki setja Rússland og Úkraínu á sama stall og tala um samningaviðræður.

Stjórnmálamenn í Evrópu allri hafa síðan tjáð mikla reiði yfir ummælum páfans, sem þeir segja að færi ábyrgðina fyrir stríðinu, sem hófst með innrás Rússa í Úkraínu, yfir á Úkraínumenn.

„Sunnudagsskoðunin mín: Maður skal ekki gefast upp gegn hinu illa, maður á að berjast við hið illa og sigra það, þar til hið illa veifar hvíta fánanum og gefst upp,“ skrifaði Edgars Rinkēvičs forseti Lettlands á X í dag.

Dennis Radtke, þingmaður á Evrópuþinginu, sagði ummælin skammarleg í færslu á X. „Afstaða hans gagnvart Úkraínu endurspeglar páfaembættið illa. Það er óskiljanlegt,“ sagði hann.

Utanríkisráðherra Póllands, Radosław Sikorski, sagði á sama miðli: „Hvað með að hvetja frekar Pútín til þess að vinna upp kjarkinn til þess að draga Rússlandsher til baka frá Úkraínu. Með því væri hægt að koma á friði án nokkurrar þarfar á samningaviðræðum.“

Þá gagnrýndi Anton Geraschenko, fyrrverandi ráðgjafi hjá innanríkisráðuneytinu í Úkraínu, ummælin á X. Hann segir furðulegt að páfinn finni ekki hjá sér þörf til þess að verja Úkraínumenn og fordæma Rússa, sem hafa drepið tugþúsundir manna í árásum sínum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×