Enski boltinn

Síðasti dansinn hjá Guardiola og Klopp?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola og Jürgen Klopp eru að mætast í þrítugast sinn sem knattspyrnustjórar.
Pep Guardiola og Jürgen Klopp eru að mætast í þrítugast sinn sem knattspyrnustjórar. Getty/Michael Regan

Knattspyrnustjórarnir Pep Guardiola og Jürgen Klopp mætast möguleika í síðasta skiptið í dag þegar Liverpool tekur á móti Manchester City í risaleik og toppslag í ensku úrvalsdeildinni.

Leikurinn hefst klukkan 15.45 að íslenskum tíma og fer fram á Anfield. Það lið sem vinnur leikinn kemst í toppsætið sem Arsenal krækti í með sigri á Brenford í gær.

Arsenal er með 64 stig, Liverpool er með 63 stig og Manchester Vity er með 62 stig. Spennan getur því varla verið meiri en eftir þennan leik í kvöld verða tíu leikir eftir.

Þetta gæti líka verið tímamótaleikur fyrir eitt mesta einvígi tveggja knattspyrnustjóra í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.

Klopp er að hætta með Liverpool liðið eftir tímabilið og þetta er seinni leikur Manhester City og Liverpool á leiktíðinni. Fyrri leikurinn endaði með 1-1 jafntefli á Ethiad leikvanginum í Manchester.

Þau geta enn mæst í enska bikarnum en þetta verður síðasti deildarleikurinn þar sem Klopp og Guardiola sitja báðir í stjórastólunum.

Þetta er þrítugasta innbyrðis viðureignin hjá liðum þeirra í öllum keppnum en þeir hafa mæst bæði í Þýskalandi sem og í Englandi.

Klopp hefur unnið einum leik fleira því hann er með tólf sigra á móti ellefu hjá Guardiola.

Lið Guardiola hafa aftur á móti skorað fimm mörkum meira í þessu 29 leikjum eða 49 á móti 44 mörkum hjá liðum Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×