Enski boltinn

Højlund fyrsti Daninn til að skara fram úr

Sindri Sverrisson skrifar
Rasmus Højlund ásamt Alejandro Garnach og Kobbie Mainoo en þetta unga þríeyki hefur þótt standa sig vel í vetur.
Rasmus Højlund ásamt Alejandro Garnach og Kobbie Mainoo en þetta unga þríeyki hefur þótt standa sig vel í vetur. EPA-EFE/ADAM VAUGHAN

Rasmus Højlund, hinn 21 árs gamli framherji Manchester United, skráði sig í sögubækurnar með því að verða fyrsti Daninn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar til að hljóta nafnbótina leikmaður mánaðarins.

Højlund hefur misst af síðustu leikjum United vegna meiðsla en hann var sjóðheitur í febrúar og skoraði í öllum fjórum leikjum United, alls fimm mörk.

United vann alla leikina og auk þess að skora fimm mörk þá lagði Højlund upp eitt til viðbótar.

Eftir töp í síðustu tveimur deildarleikjum er United með 44 stig í 6. sæti, sex stigum á eftir Tottenham sem á leik til góða. United mætir Everton í hádeginu á morgun.

Arteta bestur með Arsenal á flugi

Mikel Arteta var valinn stjóri febrúarmánaðar en Arsenal hóf mánuðinn á að vinna toppslag gegn Liverpool og vann síðan þrjá afar örugga sigra.

Markatala Arsenal í úrvalsdeildinni í febrúar var 18-2 og liðið hélt svo áfram á sömu braut í fyrsta leik í mars með 6-0 sigri gegn Sheffield United.

Arsenal tekur á móti Brentford síðdegis á morgun og getur komist á topp deildarinnar með sigri, daginn fyrir uppgjör Liverpool og Manchester City á Anfield.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×