Magnús Tumi Guðmundsson, jarðfræðingur og prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands fór yfir stöðuna á Reykjanesskaga í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
Aðspurður hvort hann færi að sofa með gos í huga og vaknaði með gos í huga, sagði hann það nú ekki vera svo.
„Með svona atburði, þegar þeir skella yfir taka þeir allan hugann, en síðan erum við að verða svolítið vön þessu. Ég er kannski ekki alltaf að hugsa um þetta því annars gerði maður ekkert annað af viti.“
Hann vill þó ekki meina að þetta ástand sé orðið hversdagslegt.
„Ég myndi ekki orða það þannig, en kannski er þetta eitthvað sem er orðið partur af deginum og lífinu. Þær áætlanir sem maður hafði sjálfur síðustu mánuði hafa ekki alveg gengið eftir í starfi því þetta hefur tekið töluverðan tíma.“
Þurfum að gæta þess að skipuleggja ekki byggð á hrauni
Magnús Tumi segir stöðuna á Reykjanesskaga óbreytta frá því sem verið hefur síðustu mánuði.
„Það er landris við Svartsengi og á því svæði, og þar streymir inn kvika. Rennslið er svipað eins og Elliðaárnar. Á laugardaginn fór af stað kvikuhlaup sem endaði ekki með gosi, hætti mjög fljótlega. Þegar þrýstingurinn fer að opnast aðeins og fer af stað þá minnkar hann. Það hefur verið einhver fyrirstaða svo þetta dugði ekki, þess vegna stoppaði það. Síðan er hann að byggjast upp aftur og er sennilega að verða kominn í svipaða stöðu og á laugardagsmorgun, kannski í dag eða á morgun.“
Að öllu óbreyttu megi búast við öðru kvikuhlaupi, en ómögulegt sé að segja til um hvort til eldgoss komi eða ekki. Þá segir Magnús Tumi að hugsanlega séum við hálfnuð í þeim atburði sem nú eigi sér stað á Reykjanesskaga.
Þá er ég að hugsa um alveg frá því að byrjaði að gjósa í Fagradalsfjalli.
Sennilegast sé að þessi atburðarrás muni halda áfram í nokkur ár. Svo sé einn möguleiki að það komið hlé í nkkur ár og virknin tekið sig upp aftur. Aðalatriðið sé að landsmenn þurfi að búa sig undir að þetta sé raunveruleikinn og læra að lifa með þessu.
„Þetta er allt partur af því að við búum í þessu landi við þessar aðstæður. Við þurfum að byggja landið og skipuleggja umhverfi þannig að þolið gegn náttúruvánni sé sem mest. Eins og við byggjum ekki hverfi á Mýrdalssandi þar sem geta komið stór jökulhlaup. Sama er með hraunið,“ segir Magnús Tumi.
Við eigum ekki að þenja byggðir út á svæðum sem eru útsett fyrir hraunrennsli. Nú er fólksfjölgun og það þarf að passa að skipulagið sé þannig að við séum ekki að búa til vandamál til framtíðar.