Erlent

Fjár­mála­ráðu­neytið hvetur for­setann til að undir­rita ekki lög­gjöf gegn hin­segin fólki

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þingið samþykkti frumvarpið í síðustu viku en forsetinn er nú sagður funda með ýmsum aðilum vegna mögulegra áhrifa þess.
Þingið samþykkti frumvarpið í síðustu viku en forsetinn er nú sagður funda með ýmsum aðilum vegna mögulegra áhrifa þess. AP/Misper Apawu

Fjármálaráðuneyti Gana hefur hvatt forseta landsins til að undirrita ekki umdeilda löggjöf gegn hinsegin fólki sem var samþykkt í þinginu í síðustu viku.

Ráðuneytið varar við því að verði frumvarpið að lögum gæti landið orðið af 3,8 milljörðum Bandaríkjadala í fjárframlögum frá Alþjóðabankanum á næstu fimm til sex árum.

Efnahagskrísa ríkir í Gana og í fyrra neyddust stjórnvöld til að leita á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Samkvæmt umræddu frumvarpi verður hægt að dæma einstaklinga í allt að þriggja ára fangelsi fyrir að vera hinsegin og fimm ára fangelsi fyrir að kynda undir hinsegin hugmyndafræði.

Tilmælum fjármálaráðuneytisins var lekið til nokkurra miðla, meðal annars BBC, en í þeim er forsetinn Nana Akufo-Addo hvattur til þess að fresta undirritun frumvarpsins þar til hæstiréttur hefur úrskurðað um það hvort lögin standist stjórnarskrá.

Bandaríkin, Bretland og ýmis mannréttindasamtök hafa fordæmt frumvarpið en það naut stuðnings beggja stærstu flokka Gana. 

Alþjóðabankinn tilkynnti í fyrra að hann myndi frysta lán til Úganda vegna löggjafar gegn hinsegin fólki, sem var enn harðari en sú sem samþykkt var í Gana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×