Innlent

Bjart en kalt í veðri í dag

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Viðey og Esjan í fallegri birtu. Myndin er úr safni.
Viðey og Esjan í fallegri birtu. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Hæð verður yfir landinu í dag og fremur hæg breytileg átt. Austast verður allhvöss norðanátt fram yfir hádegi. Víða verður léttskýjað og kalt í veðri.

Í textaspá Veðurstofunnar kemur fram að breytileg átt verði á landinu í dag, víða 3-8 m/s og léttskýjað, en allhvöss norðanátt austast og lægir þar síðdegis. Frost mælist núll til tíu stig að deginum, en mælist minnst syðst á landinu.

Hæg austanátt verður á höfuðborgarsvæðinu og léttskýjað. Frost mælist eitt til átta stig. 

Á morgun bætir síðan í vind austan og norðaustan og mælist 5-15 m/s austan til á morgun. Hvassast verður við suðausturströndina. 

Annað kvöld fer síðan að hlýna á láglendi og hiti nær núll til fimm stigum. Vindur verður hægari um landið vestanvert, þar verði bjart með köflum og áfram kalt.

Spáin klukkan 14 í dag. Veðurstofa Íslands

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á sunnudag: Austan 3-8 og bjart með köflum á vestanverðu landinu, frost 0 til 10 stig. Austan 5-13 með lítils háttar snjókomu eða slyddu austan til, en síðar rigningu á láglendi og hita yfir frostmarki. Bætir í úrkomu um kvöldið.

Á mánudag: Austan 5-13 og rigning eða slydda með köflum fram eftir degi, en úrkomulítið norðanlands. Hiti 0 til 5 stig.

Á þriðjudag: Austlæg átt og rigning með köflum, hiti 1 til 6 stig. Að mestu þurrt norðan heiða og heldur svalara.

Á miðvikudag og fimmtudag: Suðaustanátt, rigning með köflum og milt veður, en þurrt á Norðaustur- og Austurlandi.

Á föstudag: Útlit fyrir sunnanátt með lítils háttar vætu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×