Verðbólga hefur minnkaði um 0,1 prósentustig frá því í janúar. Bæði Hagdeild Landsbankans og Greining Íslandsbanka höfðu gert ráð fyrir að verðbólga myndi minnka um 0,6 prósentustig og verða 6,1 prósent í febrúar en ekki 6,6 prósent eins og raunin varð.
Bergþóra Baldursdóttir hagfræðingur Íslandsbanka segir vonbrigði að verðbólga hjaðnaði ekki meira.
„Kannski smá ljós í myrkrinu að verðbólga hjaðnaði þó smávegis. Þrátt fyrir þessa hækkun (vísitölunnar) í febrúarmánuði,“ segir Bergþóra. Ekki þurfi að koma á óvart að lok útsala hefði töluverð áhrif á neysluvísitöluna í febrúar.
Verð á fatnaði og skóm hækkaði um 8,4 prósent milli mánaða og verð á húsgögnum og heimilisúnaði hækkaði um 5,5 prósent. Þá koma hækkanir sveitarfélaga á gjaldskrám vegna sorhreinsunar, fráveitu og köldu vatni um 11 prósent að fullu fram í febrúarmælingunni.
Þessar gjaldskrárhækkanir hafa verið gagnrýndar harðlega af verkalýðshreyfingunni sem hefur krafist þess að stór hluti þeirra verði dregin til baka til að styðja við hógværa kjarasamninga til fjögurra ára sem ætlað væri að minnka verðbólgu og lækka vexti.
Annar vaxtaákvörðunar dagur Seðlabankans á þessu ári er hinn 20. mars eða eftir þrjár vikur. Meginvextir bankans hafa verið óbreyttir í 9,25 prósentum frá því í ágúst í fyrra. Við síðustu vaxtaákvörðun hinn 7. febrúar ákváðu fjórir nefndarmanna af fimm í peningastefnunefnd að halda vöxtunum óbreyttum. Gunnar Jakobsson varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika vildi hins vegar lækka vextina um 0,25 prósentustig.
Bergþóra segir bjartara yfir peningastefnunefndinni en oft áður samkvæmt fundargerð nefndarinnar.
Þannig að þeir sem eru með húsnæðislán geta farið að láta sig dreyma um lækkun vaxta á næstu misserum?
„Já, ef allt fer á besta veg. Bæði kjarasamningar og verðbólgan. Þá eru miklar líkur á lækkun vaxta alla vega á þessu ári. En til að hafa í huga þá verða það líklega mjög varfærin skref sem peningastefnunefnd Seðlabankans tekur. Hún fer örugglega ekki að lækka vexti mjög hratt niður heldur byrjar frekar rólega og sér hvernig áhrifin verða af því,“ segir Bergþóra Baldursdóttir.