Fótbolti

Sú besta í heimi segir að HM-titill Spán­verja hafi litlu breytt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aitana Bonmati þykir að mati margra vera besta knattspyrnukona heims í dag. Hér er hún í landsleik með Spáni.
Aitana Bonmati þykir að mati margra vera besta knattspyrnukona heims í dag. Hér er hún í landsleik með Spáni. Getty/Manu Reino

Kvennafótboltinn á Spáni hefur ekki grætt neitt á heimsmeistaratitli spænska landsliðsins. Þetta er skoðun Aitana Bonmatí sem var kosin besta knattspyrnukona heims á síðasta ári.

Bonmatí viðurkenndi í viðtali við franska stórblaðið L'Equipe að hún öfundaði ensku landsliðskonurnar yfir viðbrögðunum í Englandi efir sigur ensku stelpnanna á EM 2022.

„Því miður verð ég að segja það að lítið hefur breyst hjá okkur,“ sagði Aitana Bonmatí þegar hún var spurð út í áhrifin af því að spænska kvennalandsliðið varð heimsmeistari í fyrsta sinn.

„Við höfum þetta frábæra dæmi með Englendingana. Þegar þær unnu Evrópukeppnina þá sáum við mikla breytingu hjá öllu hjá þeim,“ sagði Bonmatí.

„Það urðu fullt af hliðarverkunum. Það komu inn fjárfestingar í deildina og það voru fullir vellir þegar enska liðið spilaði. Mig langaði í það af því að ég get ekki sagt hið sama með hlutina hér á Spáni. Það er svo mikið sem þarf að gerast hér og mér finnst eins og heimsmeistaratitillinn hafi verið fyrir lítið,“ sagði Bonmatí.

„Þetta þarf að byrja á því að gera alla hluti vel. Kynna leikina almennilega, spila þá á boðlegum leikvöngum og ekki breyta um leikvang viku fyrir leikinn. Það gerir allt svo miklu flóknara fyrir stuðningsfólkið,“ sagði Bonmatí.

Bonmatí leggur sérstaka áherslu á það að kynningarstarfið sé ekki upp á marga fiska. „Þetta er ekki á þeim stað sem við eigum skilið,“ sagði Bonmatí.

Bonmatí fékk bæði Gullhnöttinn og verðlaun FIFA sem besta knattspyrnukona heims á síðasta ári. Auk þess að verða heimsmeistari þá vann hún Meistaradeildina með Barcelona sem og alla titla í heimalandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×