Handbolti

Mælir með Ís­lendingum úr efstu hillu

Sindri Sverrisson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson er einn af þeim sem Bent Nyegaard telur hæfasta til að taka við Aalborg. Guðjón þekkir dönsku deildina eftir að hafa spilað í henni.
Guðjón Valur Sigurðsson er einn af þeim sem Bent Nyegaard telur hæfasta til að taka við Aalborg. Guðjón þekkir dönsku deildina eftir að hafa spilað í henni. Getty/Tom Weller

Danski handboltasérfræðingurinn og Íslandsvinurinn Bent Nyegaard segir að nýr þjálfari Aalborg Håndbold verði að koma úr „efstu hillu“ og mælir með þremur Íslendingum.

Nyegaard segir við TV2 að Aalborg verði að fá reyndan þjálfara sem skilji þær kröfur sem gerðar séu hjá félaginu. Um sé að ræða það félag í Danmörku sem sé með mest á milli handanna og geti staðist alþjóðlegan samanburð. Stefan Madsen hættir sem þjálfari liðsins í sumar.

Nyegaard segir að Aalborg þurfi einhvern eins og Nikolaj Jacobsen, landsliðsþjálfara Danmerkur, en segir að hann komi þó ekki til greina. Þess í stað nefnir hann fimm kandídata og eru þrír þeirra íslenskir.

Dagur, Guðjón eða Arnór?

Íslendingarnir eru þeir Dagur Sigurðsson, Guðjón Valur Sigurðsson og Arnór Atlason. Dagur er hættur með japanska landsliðið en hefur átt í viðræðum um að taka við króatíska landsliðinu, og spurning hvort að Álaborg heilli hann nægilega mikið.

Nyegaard nefnir einnig Guðjón Val Sigurðsson sem hefur gert frábæra hluti í sínu fyrsta þjálfarastarfi hjá Gummersbach. Nyegaard segir að Guðjón Valur hafi komið til greina sem landsliðsþjálfari Íslands sem segi sitt um hans gæði, en að það geti skapað vandamál að samningur hans við Gummersbach sé til sumarsins 2025.

Loks er Arnór Atlason á listanum hjá Nyegaard. Arnór er vel liðinn í Álaborg eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari liðsins en er núna aðalþjálfari TTH Holstebro, og aðstoðarlandsliðsþjálfari Íslands.

Nyegaard nefnir einnig Norðmennina Kristian Kjelling og Börge Lund, þjálfara Elverum og Drammen, og Henrik Kronborg sem er aðstoðarlandsliðsþjálfari Danmerkur en var rekinn frá Skjern í október í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×