Erlent

Tapaði enn og aftur á­frýjun gegn sviptingu ríkis­borgara­réttar

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Shamima Begum fór til Sýrlands árið 2015 til að ganga til liðs við ISIS ásamt tveimur öðrum stúlkum.
Shamima Begum fór til Sýrlands árið 2015 til að ganga til liðs við ISIS ásamt tveimur öðrum stúlkum. Vísir/Getty

Shamima Begum tapaði enn á ný áfrýjun gegn ákvörðun breskra stjórnvalda um að svipta hana ríkisborgararétti. Shamima fæddist í Bretlandi en gekk til liðs við hryðjuverkasamtökin Ríki Íslams í Sýrlandi fimmtán ára gömul árið 2015.

Shamima fannst í fangabúðum fyrir meðlimi samtakanna í Sýrlandi árið 2019. Í ljós kom að hún hafði gengið að eiga vígamann samtakanna og eignast þrjú börn með honum. Öll létust þau mjög ung.

Bresk stjórnvöld sviptu Shamimu, sem er nú 24 ára gömul, ríkisborgararétti á grundvelli þjóðaröryggis skömmu eftir að hún fannst í búðunum. Lögmaður Begum hefur haldið því fram að hún hafi verið seld mansali til Sýrlands til kynferðislegrar misnotkunar.

Dómstóll í Bretlandi staðfesti í dag ákvörðun sérstaks áfrýjunardómstóls innflytjendamála sem hafði hafnað áfrýjun Begum á síðasta ári. Komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að ákvörðun breskra stjórnvalda hefði ekki verið ólögmæt. Lögmaður Begum hefur heitið því að málið verði ekki látið kyrrt liggja þrátt fyrir niðurstöðuna í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×