Þetta kemur fram í skoðanagrein Garðars Stefánsson, forstjóra Rapyd á Íslandi, sem birtist á Vísi í dag undir nafninu „Enn af Rapyd og röngum fullyrðingum“.
Greinin er framhald af skoðanagrein hans sem birtist fyrir viku um Rapyd á Íslandi þar sem hann sagði að fyrirtækið væri íslenskt, tengdist átökum fyrir botni Miðjarðarhafs ekki neitt og hefði ekki stutt við hernað Ísraelshers með nokkru móti.

Björn B. Björnsson, sjálftitlaður áhugamaður um mannréttindi, svaraði Garðari á föstudag í skoðanagreininni „Rétt og rangt um Rapyd“ á Vísi. Þar sagði Björn það rangt að fyrirtækið væri íslenskt af því að í fyrirtækjaskrá væru raunverulegir eigendur þess tveir Ísraelar, þar á meðal forstjórinn Arik Shtilman, og Breti.
Sömuleiðis sagði Björn það vera rangt að Rapyd hefðu ekki stutt við hernað Ísraelshers af því að fyrrnefndur Shtilman hefði lýst yfir stuðningi við herinn og útrýmingu á öllum Hamas-liðum. Að lokum skrifaði Björn að hann skildi vel að það væri erfitt fyrir starfsfólk Rapyd á Íslandi að vinna fyrir fyrirtæki sem styður opinberlega morð á óbreyttum borgurum.
Ómálefnaleg krafa um sniðgöngu á Rapyd í nafni mannréttinda
„Ég virði það að fólk hafi ólíkar skoðanir og vissi að grein mín kynni að kalla fram viðbrögð enda gengur þessi fámenni hópur langt í að reyna að tengja Rapyd á Íslandi við átök í Mið-Austurlöndum,“ skrifar Garðar í skoðanagrein sinni í dag. Hann segir að þeim rangfærslum verði ekki svarað en hann verði að svara rangfærslum og útúrsnúningum um raunverulegt eignarhald Rapyd á Íslandi.
Garðar segir í greininni að Rapyd á Íslandi sé íslenskt fyrirtæki með íslenska kennitölu sem hefði verið stofnað hér á landi og haft starfsstöð í tugi ára. Félagið sé með umfangsmikla starfsemi og 180 starfsmenn á Íslandi. „Þessir starfsmenn byggja íslenskt samfélag og þurfa því miður að sitja undir ómálefnalegum áróðri um sinn starfsvettvang,“ skrifar hann.
Skrif um eigendaskráningu Rapyd í fyrirtækjaskrá byggi á vanþekkingu á því hvernig skráning raunverulegra eigenda virkar. Í ljósi þess að eignarhaldið sé dreift og enginn einstaklingur fari með ráðandi hlut í hlutafélaginu séu þeir einstaklingar sem mynda stjórn þess skráðir sem raunverulegir eigendur.
„Krafa um sniðgöngu á Rapyd á Íslandi í nafni mannréttinda er að mínu mati ómálefnaleg og ómakleg. Rapyd á Íslandi og það góða starfsfólk sem starfar hjá félaginu hefur ekkert með ástandið í Mið-Austurlöndum að gera og er jafn vanmáttugt um að stöðva átökin og aðrir hér á landi,“ skrifar hann einnig í greininni.
„Það væri óskandi að þeir sem ganga lengst í því að reyna að gera Rapyd á Íslandi að sökudólg átakanna beini kröftum sínum í raunverulegri baráttu fyrir friði og betri veröld. Slíkt vinnst ekki með sniðgöngu á aðilum sem ekkert hafa sér til sakar unnið,“ skrifar hann að lokum.